Kaupendur rafbíla muni geta sótt um styrk úr Orkusjóði
Einstaklingar og fyrirtæki geta frá næstu áramótum sótt um styrk vegna kaupa á rafbílum og öðrum orkuhlutlausum bifreiðum en styrkurinn á að koma í stað skattaívilnana sem eru að falla úr gildi að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir því að stefnt sé að því að styrkurinn nemi allt að 900 þúsund krónum á hvern bíl í fjölskyldubílaflokki.
„Nokkrir flokkar verða í boði og það verða jafnframt veittir styrkir við kaup á atvinnutækjum. Það verða mismunandi upphæðir í boði eftir gerð bíls, eftir því hvort sótt er um styrk við kaup á fjölskyldubíl eða sendibíl. Það verður fyrst og fremst um þessa tvo flokka að ræða,“ segir Ragnar K. Ásmundsson sem fer með málefni Orkusjóðs hjá Orkustofnun.
Að sögn Ragnars verði styrkurinn síðanafgreiddur á þann bankareikning sem viðkomandi eigandi hefur gefið upp á skattskýrslum. Umsóknin verður svo greidd samdægurs eða innan tveggja daga. Heimildir Morgunblaðsins herma ennfremur að til standi að verja 30 milljörðum króna í umrædda styrki á árunum 2024 til 2027. Ekki sé gert ráð fyrir þaki á fjölda umsókna en kaupverð einstaka bifreiða verði að vera undir 10 milljónum króna.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir í samtali á visi.is að FÍB, fagni ívilnunum sem veita á einstaklingum og fyrirtækjum vegna kaupa á rafbílum og öðrum orkuhlutlausum bifreiðum frá og með áramótum. Slíkar ívilnanir verði þó brátt barn síns tíma.
Runólfur fagnar tillögum Orkusjóðs sem séu hugsaðar sem hvati.
„Ég tel jákvætt að það sé einhver ívilnun. En hver útfærslan nákvæmlega verður,á bara eftir að koma í ljós.“
Hann telur styttast í að ívilnanir fyrir rafbíla verði brátt barn síns tíma. Hlutfall rafmagnsbíla hefur verið hæst hvað varðar heildarsölu bíla það sem af er ári, samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins.
„Til lengri tíma held ég að þessi ívilnunarhvati þurfi ekki að vera nema til skamms tíma, eitt til þrjú ár. Þetta er að verða fjöldaframleiðsluvara og er í mörgum tilfellum búin að ná verði á hefðbundnum brunahreyfilsbíl," segir Runólfur Ólafssin í samtali við visir.is