Kaupmátturinn er meginatriðið
Þegar bæði einstaklingar og samtök eins og FÍB hafa í áranna rás gagnrýnt hvernig að vegagerð, umferðaröryggi og skattlagningu umferðar er staðið á Íslandi er æði oft af hálfu sjórnvalda vitnað til þess hvernig þessum málum er fyrir komið í Noregi. Þegar fjallað er um öryggi vega og ekki síst jarðganga hér á landi vitna yfirvöld, ekki síst ráðherrar, gjarnan til þess að allt sé í hinum mesta sóma því farið sé eftir norskum stöðlum. Sleppt er alveg að nefna það að þessir svokölluðu norsku staðlar hafa lengi verið sér á parti og ekki staðist samanburð við það verklag sem grannlöndin Svíþjóð, Finnland og Danmörk o.fl, svo ekki sé nú minnst á Þýskaland, hafa viðhaft í þessum efnum.
Nú hafa eldsneytisskattar á Íslandi verið stórhækkaðir. Heimsmarkaðsverð eldsneytisins er jafnframt í hæstu hæðum um þessar mundir þannig að eldsneytisverð á Íslandi er nú í sögulegu hámarki. Það er því full ástæða til þess nú að vara lesendur við lævíslegum fullyrðingum og áróðri sem vafalítið eiga eftir að heyrast og sjást á næstunni um að þetta sé nú alls ekki svo bölvað hér á landi þrátt fyrir allt - eldsneytisverð sé víða hærra en hér, ekki síst í Noregi!!!
Gott og vel. Þessi nálgun er rétt svo langt sem hún nær en hún er engu að síður skökk og lágkúruleg tilraun til að gera lítið úr háu bensínverði á Íslandi. Böl íslenskra heimila batnar ekkert við það að bent sé á eitthvað annað „verra“ annarsstaðar og vel að merkja verra út frá íslenskum forsendum.
Kjarni málsins er þessi: Ástæða þess að við erum með svona „skaplegt" eldsneytisverð er gengi íslensku krónunnar, sem aftur gerir það að verkum að almenningur hér á landi er með mun lakari kaupmátt en þegnar flestra þeirra samanburðarlanda sem koma við sögu í töflunni með þessari frétt (allavega þeirra sem við viljum bera okkur saman við).
Dæmi um þetta er ungur maður, fyrrverandi starfsmaður FÍB-aðstoðar, sem nýlega hóf störf sem trésmiður í Noregi. Hann fær þar í byrjunarlaun jafngildi um 3.500 íslenskra króna á klst. Hér heima hafði hann um 1.500 krónur á klst. Hann getur keypt sér nokkra viðbótar lítra á háa norska verðinu fyrir mismuninn. Hvað varðar aðra afkomuþætti þessa unga manns þá er matarverð, húsaleiga og skattar svipað og hér heima. Meginmunurinn fyrir hann er sá að kaupmátturinn er meira en helmingi hærri í Noregi en hér.