Kaupsamningur milli Tata og Ford um Jaguar og Land Rover

http://www.fib.is/myndir/Jaguar_Logo.jpghttp://www.fib.is/myndir/Land_Rover_logo.jpg

Breskir fjölmiðlar greina frá því í dag að jafnvel á morgun eða fyrir vikulok sé að vænta tilkynningar frá Ford Motor Company um að hið indverska Tata sé orðinn eigandi breskustu bílamerkja nútímans – Jaguar og Land Rover.

Viðræður hafa staðið yfir milli Tata og Ford mánuðum saman og nokkrum sinnum hafa fréttir verið sagðar af því að nú séu menn orðnir ásáttir um verð og skilmála og jafnoft hafa slíkar fregnir verið bornar til baka. En nú herma fregnir að kaupin séu að mestu frágengin, pappírsvinnu sé lokið og kaupverðið sem Tata greiðir sé rúmir tveir milljarðar dollara. Tata sé með peningana handbæra fyrir tilstilli bankanna Citigroup og JP Morgan.

Samkvæmt fréttum hefur teygst úr viðræðum Ford og Tata ekki síst vegna ágreinings um að hve miklu leyti og hversu lengi Ford skuli sjá Tata fyrir ýmsum hlutum í  bílana, eins og t.d. vélum og tæknibúnaði. Eins og nú háttar framleiðir Ford í Bretlandi allar vélar í bæði Jaguar og Land Rover.

Stéttarfélög starfsfólks hjá bæði Jaguar og Land Rover hafa öll lagt blessun sína yfir væntanleg kaup Tata á Jaguar og Land Rover. Það gerðu þau eftir að forstjóri Tata lýsti því yfir að framleiðslan yrði ekki flutt til Indlands heldur yrði áfram í Bretlandi.