Kemst Skódinn hringinn á einum olíutanki?
Skoda Octavia 1,9 TDI.
Í dag kl. 11 leggur dísilknúin Skoda Octavia bifreið af stað frá Reykjavík í hringferð umhverfis landið. Ætlunin er að reyna að aka hringinn á einni og sömu tankáfyllingunni og ef það tekst fær Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna bílinn til fulllra afnota í eitt ár, félaginu að kostnaðarlausu. Það er FÍB sem leggur til ökumanninn í þessa ferð en með í för verður Óskar Örn Guðbrandsson, nýr framkvæmdastjóri Samtaka krabbameinssjúkra barna og Þuríður Arna, fjögurra ára dóttir Óskars en hún greindist með góðkynja æxli við heila fyrir tveimur árum.
Sem fyrr segir leggur FÍB til ökumanninn. Sá heitir Stefán Ásgrímsson og er ritstjóri fréttavefs FÍB. Áætlað er að ferðin taki tæpa þrjá daga og má því búast við að á meðan henni stendur verði fréttir á www.fib.is stopular.
Eins og einhverjir e.t.v. muna ók sr. Jakob Rolland prestur kaþólska safnaðarins í Hafnarfirði hringinn umhverfis Ísland á einni tankfylli af dísilolíu fyrir um tveimur árum. Sú ökuferð var að frumkvæði FÍB og var Stefán þá sr, Jakobi til aðstoðar. Bifreiðin sem þá fór á einni tankfylli var af Volkswagen Golf gerð með sex gíra gírkassa. Skodinn sem nú er ætlunin að reyna á hvort komist hringinn er með svipaðri dísilvél og Golfinn fyrrnefndi en með fimm gíra gírkassa og aðeins minni eldsneytisgeymi þannig að það er nokkuð tvísýnt hvort það tekst að komast hringinn á einum tanki. Það verður því nokkuð spennandi hvort markmiðið næst og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna fær bílinn til frírra afnota. Fjölmiðlar munu fylgjast með ferðalöngunum og greina frá gangi ferðarinnar. Þá verður greint frá gangi mála á fréttavef Heklu hf.
Lagt verður upp í ferðina kl. 11 frá bækistöð Frumherja á Ártúnshöfða og er ætlunin að aka til Akureyrar í dag. Eftir næturgistingu Akureyri verður svo ekið að Kirkjubæjarklaustri á þriðjudag og gist þar. Frá Kirkjubæjarklaustri verður síðan ekið áleiðis til Reykjavíkur og komið í bæinn fyrir hádegi - ef olían dugar.