Kia byggir sinn fyrsta rafbíl
Kia Motors í S. Kóreu frumsýndi í morgun nýjan rafknúinn smábíl sem um leið er fyrsti rafbíllinn sem Kia setur saman. Bíllinn, sem nefnist Kia Ray EV, er ætlaður einvörðungu fyrir heimamarkaðinn og fyrst og fremst hugsaður sem þjónustubíll fyrir opinberar stofnanir og fyrirtæki- fyrst um sinn í það minnsta.
Rafbíllinn verður byggður í 2.500 eintökum á nýja árinu. Ef viðtökur verða þokkalegar og reynslan sömuleiðis er ætlunin að setja hann í almenna sölu að sögn talsmanns Kia við fréttastofu Reuters. Drægi hans á rafhleðslunni er uppgefið 140 kílómetrar og hámarkshraðinn 130 km á klst.
Innviðir fyrir rafbíla eru af skornum skammti í Kóreu og (hrað)hleðslustöðvar fáar, sem takmarkar mjög almennt notagildi rafbílanna. Sem dæmi um það er sú staðreynd að í höfuðborg landsins sem er milljónaborg, eru einungis 500 hleðslustöðvar. Yfirvöld hyggjast nú gera átak og fjölga þeim í 3.100 fyrir lok komandi árs.
En gagnstætt því sem margir hafa álitið, þá hefur útbreiðsla rafbíla orðið hægari en vonir stóðu til. Ástæður þess eru taldar vera þær helstar að rafbílarnir eru mjög dýrir (rafhlöðurnar ekki síst), notagildið er takmarkaðra en notagildi hefðbundinna bíla og loks hafa framfarir í smíði brunahreyfla skilað stöðugt sparneytnari og umhverfismildari bílum, þannig að bilið milli þeirra og rafbílanna hefur styst.
Kia Motors er dótturfyrirtæki Hyundai Motors en um leið næst stærsti bílaframleiðandi Kóreu á eftir Hyundai.