Kia stórhuga á rafbílamarkaði á næstu árum
Bílaframleiðandinn Kia ætlar sér stóra hluti á rafbílamarkaðnum á næstu árum. S-Kóreska fyrirtækið upplýsti framtíðaráform sín á þessum markaði í vikunni og kom ennfremur fram að bílaframleiðandinn ætlar að taka sér leiðandi stöðu á þessum vettvangi.
Forsvarsmenn Kia segjast gera sér grein fyrir að rafbílaeiegndum mun fjölga hraðar en búist hafði verið við. Þess má geta að sala í rafbílum á Norðurlöndum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er til að mynda mun meiri en á sama tíma í fyrra. Hafa verður í huga að bílasala almennt eftir að kórónuveirufaraldurinn skall yfir hefur minnkað verulega um heim allan.
Á næsta ári munu koma á markaðinn frá Kia bílar sem hafa mun meira drægni en sést hefur til þessa. Fyrir árið 2025 mun Kia koma ellefu rafknúnum ökutækjum á markað um allan heim á ýmsum sviðum eins og fólksbílum, jeppum og fjölnotabílum. Fyrsti bíllinn sem smíðaður er á nýjum og sérstökum rafbílspalli verður settur á markað á næsta ári. Um er að ræða crossover með yfir 500 km drægni og hægt verður að hlaða á 20 mínútum.