Kia undirbýr framleiðslu á rafknúnum sendibílum
Kia tók á dögunum fyrstu skóflustunguna að sérhannaðri verksmiðju fyrir framleiðslu sérsmíðaðra rafbíla. Athöfnin var haldin hjá Hwaseong-verksmiðju Kia, í héraðinu Gyeonggi í Suður-Kóreu. Rúmlega 200 manns voru viðstaddir athöfnina, þar á meðal fulltrúar stjórnvalda, Euisun Chung, stjórnarformaður Hyundai Motor Group, Ho Sung Song, forstjóri Kia, og annað starfsfólk Hyundai Motor Group og fulltrúar íhlutageira bílaiðnaðarins.
Kia mun fjárfesta um eina billjón vonna (um 758 milljónir Bandaríkjadala) í um 99.000 ekrum lands og markmiðið er að fjöldaframleiðsla verði komin á fullt á seinni hluta ársins 2025. Markmiðið er að framleiða 150.000 bíla á fyrsta árinu eftir að fullum afköstum er náð, með möguleika á aukinni framleiðslu í samræmi við aðstæður á markaði síðar meir.
Umhverfisvernd er höfð að leiðarljósi við byggingu nýju sérsmíðaverksmiðjunnar þar sem stuðst verður við nýstárlegar framleiðslutæknilausnir á meðan losun kolefnis er haldið í lágmarki. Skilvirkni og hugvit eru einnig leiðarstef í verksmiðjunni þar sem notast er við E-FOREST tæknilausnir, snjallverksmiðjuvörumerki Hyundai Motor og Kia, sem meðal annars nær til stafrænna framleiðslukerfa.
Á meðal nýjunga í framleiðsluferlum sem innleiddar eru í nýju sérsmíðaverksmiðjunni er svokölluð „selluaðferð“, sem lagar framleiðsluferli bíla að fjölbreyttum kröfum viðskiptavina. Selluaðferðin er framleiðsluáætlun sem flokkar saman vélar eða vinnustöðvar sem eru notaðar til að framleiða svipaðar vörur eða íhluti. Kia mun einnig nýta nýjustu tækni á borð við sjálfvirknivæðingu sem byggir á vélnámi, gervigreind og sjálfvirkni.
Nýja verksmiðjan mun verða „mannvæn“ verksmiðja þar sem notast verður við sjálfvirkni í erfiðari vinnu og verkum sem krefjast þess að mikið sé horft upp, um leið og tilfinning fyrir opnu rými er aukin og hávaði er lágmarkaður.
Fyrsti sérsmíðaði rafbíllinn áætlaður á markað 2025
Kia stefnir á að kynna SW sendibílinn, fyrstu gerðina í línu sérsmíðaðra rafbíla frá fyrirtækinu, árið 2025. Bíllinn verður í millistærð og byggður á eS-undirvagninum, sérhönnuðum hjólabrettalaga undirvagni fyrir sérsmíðaða rafbíla, sem býður upp á uppsetningu fjölbreyttra gerða yfirbygginga.
SW mun geta uppfyllt fjölbreyttar rekstrarþarfir, s.s. útkeyrslu, leigubílaakstur og þjónustu, þökk sé framúrskarandi þyngdardreifingu og rúmgóðu innanrými sem fullorðinn einstaklingur getur staðið uppréttur inni í.
Eftir að SW kemur á markað ætlar Kia sér að bæta stórum sérsmíðuðum rafbílum við vörulínuna, sem hægt verður að nota í vöruflutninga, flutning ferskvöru og umfangsmeiri fólksflutninga og sem færanlegt skrifstofu- og verslunarrými, sem og minni sérsmíðuðum rafbílum og sjálfkeyrandi leigubílum með sjálfstýringu.