Kílómetragjald lagt á með of skömmum fyrirvara
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að innleiðing kílómetragjalds á rafbíla um áramótin með svo skömmum fyrirvara hefur haft töluverðan kostnað og óþægindi í för með sér hjá fyrirtækjum sem hafa stóra bílaflota. Skrá þurfi inn kílómetrafjöldann handvirkt sem sé afar tímafrekt. En lög um gjaldtökuna tóku gildi skömmu fyrir áramót.
Í viðtali við Morgunblaðið segir María Jóna að margir vankantar og hindranir í veginum og þá ekki síst hjá bílaleigum, bílaumboðum og bílasölum sem eru með stóra flota og fengu skamman fyrirvara til að skila inn stöðu allra ökutækja sem eiga nú að greiða kílómetragjald. Það þarf að slá inn hvern og einn bíl á island.is og það tekur langan tíma. Einnig kom í ljós þegar fyrirtækin ætluðu að skrá stöðu ökutækja að ekki var hægt að sækja svona mörg ökutæki í einu á síðunni og því var ekki hægt að hefja skráningar strax.
Þetta var keyrt mjög hratt í gegn
,,Bílgreinasambandið hefur gagnrýnt hve hratt var staðið að eins viðamikilli breytingu og þessari þar sem stofnanir höfðu einnig lítinn tíma til að undirbúa sig við að móttaka gögnin. Þetta var keyrt mjög hratt í gegn. Annar vankantur á gjaldtökunni er að margir eru að fá á sig áætlun í staðinn fyrir raunakstur, en sem dæmi ef ökutæki hefur skipt um eiganda þurfa að vera tvær skráningar hjá sama eiganda en til þess var ekki nægur tími til stefnu þegar einungis rúmur mánuður var til stefnu,“ segir María Jóna við Morgublaðið og vísar til laga um kílómetragjald.
Það hefði átt að gefa meira svigrúm
Aðspurð að nú sé komin reynsla af gjaldtökunni. Hvernig hefði átt að útfæra hana betur að hennar mati?
„Það hefði átt að gefa meira svigrúm. Láta hana taka gildi um mitt ár þannig að fyrirtæki með stóra flota væru undir það búin og stjórnvöld tilbúin að taka á móti gögnunum. Það þarf að handskrá þetta allt inn þar sem kerfin eru ekki tilbúin að taka á móti og á þessum stutta tíma hefur það skapað vandkvæði.“
Hvaða áhrif hefur þetta á áhuga almennings á að eignast rafbíl? Skiptir þetta einhverju máli?
„Já. Stjórnvöld hafa verið að leggja auknar álögur á hreinorkuökutæki á síðustu misserum og þar með hefur rekstrarhagkvæmni þeirra orðið minna aðlaðandi. Þeir sem voru fyrstir til að kaupa rafbíl voru einstaklingar sem keyra lengri vegalengdir þar sem hann var sparneytnari. Þannig að nú er jafnvel orðið dýrara að keyra rafbíl en sparneytinn bíl sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti, þótt viðhald á rafbíl sé enn þá ódýrara.“
Banna á sölu hreinna bensín- og díselbíla á Íslandi 2030. Hversu raunhæft er það miðað við þróunina?
„Ég tel að það sé vel raunhæft. Bílaframleiðendur eru að færa sig í þennan flokk ökutækja og það er komið gott úrval af rafbílum á markaðinn í öllum stærðarflokkum. Stjórnvöld ætluðu að hraða orkuskiptum en hafa með aðgerðum sínum hægt verulega á þeim,“ segir María Jóna.
Mikill samdráttur íbílasölu
Tæplega 50% færri rafbílar hafa selst á Íslandi frá áramótum en á sama tímabili í fyrra. Miðað er við fólksbíla og sölu til og með 16. febrúar. Þá hefur sala bensín- og díselbíla dregist saman um 45% á sama tímabili að því er fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandinu. Í tölunum kemur fram að sala rafbíla hrunið í öllum flokkum hvort sem litið er til sölu til einstaklinga, fyrirtækja eða bílaleiga. Nýskráningar fólksbifreiða voru tæplega 1200 fyrstu sex vikur ársins 2023 en á sama tímabili yfirstandandi árs eru þær rúmlega 600.