Kílómetragjald leggst á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla 2024
Í tilkynningu sem birtist á vef Stjórnarráðsins í dag kemur fram að eigendur rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla munu þurfa að greiða kílómetragjald árið 2024. Er það um ári fyrr en eigendur dísel- og bensínbíla sem verða rukkaðir um gjaldið í ársbyrjun 2025. Kílómetragjaldið sé hluti af nýju kerfi, og muni það leysa af hólmi sérstakt gjald á bensín og olíu sem nú sé í gildi.
Í áætlunum er miðað við að kílómetragjald verði 6 kr. á næsta ári fyrir rafmagns- og vetnisbíla. Tengiltvinnbílar munu hins vegar greiða 2 kr. kílómetragjald á næsta ári, sem er þriðjungur á við rafmagnsbíla, þar sem þeir nota bæði rafmagn og jarðefnaeldsneyti og greiða áfram tilheyrandi gjöld fyrir notkun hins síðarnefnda.
Í tilkynningunni kemur fram að árangur í orkuskiptum kallar á að fjármögnun vegasamgangna verði óháð jarðefnaeldsneyti. Stefnt er að innleiðingu nýs, einfaldara og sanngjarnara kerfis á næstu árum, þar sem greitt er almennt kílómetragjald í stað sértækra gjalda á bensín og olíu sem nú eru í gildi. Þannig verður kerfið sjálfbærara og styður við áframhaldandi uppbyggingu og viðhald vegakerfisins samhliða orkuskiptum til framtíðar.
Aðlögun fjármögnunar vegasamgangna að orkuskiptum fer fram í tveimur áföngum:
- Fyrra skrefið verður stigið á næsta ári með innleiðingu kílómetragjalds fyrir notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla sem hafa hingað til borið takmarkaðan kostnað af notkun vegakerfisins.
- Seinna skrefið verður stigið í ársbyrjun 2025 þegar dísel- og bensínbílar fara einnig að greiða kílómetragjald. Samhliða er gert er ráð fyrir að eldri gjöld á borð við vörugjöld af eldsneyti muni eftir atvikum lækka eða falla niður, þó kolefnisgjald verði áfram greitt.
Greitt mánaðarlega og byggt á fjölda ekinna kílómetra á tímabilinu
Kílómetragjald verður áætlað og greitt með svipuðum hætti og gjöld fyrir þjónustu veitu- og orkufyrirtækja vegna sölu á heitu vatni og rafmagni til heimila og fyrirtækja. Þannig verður greitt mánaðarlega og byggt á fjölda ekinna kílómetra á tímabilinu. Gjaldtakan verður byggð á akstursáætlun á grundvelli upplýsinga sem umráðamenn bíla skrá inn á Ísland.is, í smáforriti eða á vefsvæði. Einnig verður þó í boði önnur skráningarleið fyrir þá sem ekki geta nýtt Ísland.is.
Áform um lagasetningu sem birt hafa verið í samráðsgátt.