Kílómetrateljarafalsanir

Mest lesna fréttin á vef Morgunblaðsins í gær var endursögn á frétt úr nýjasta FÍB blaðinu um kílómetrateljarasvindl en frétt Morgunblaðsins má lesa hér.

Það kann að hljóma undarlega þegar í hlut eiga hátæknivæddir bílar nútímans, hversu auðvelt það er og einfalt að breyta kílómetratölum í stafrænum hraðamælum bíla nútímans. Það er í raun einungis minniháttar forritunarverkefni að vinda ofan af kílómetrateljaranum og það tekur einungis örfáar mínútur að framkvæma. Hver sem er getur lært það og tæki til þess eru seld á Internetinu og þar eru ótrúlega margir aðilar sem bjóða fram þjónustu sína við að „leiðrétta“ kílómetratölur notaðra bíla. Ekki þarf annað en slá inn -mileage correction services eða kílómetraleiðréttingaþjónusta á Google sem skilar manni strax 348.000 tengingum.

Æ fleiri Evrópulönd, þar á meðal Ísland, hafa tekið fyrsta skrefið í átt til lausnar þessara mála. Það felst í stuttu máli í því að í hvert sinn sem bíll er færður til skoðunar, til þjónustueftirlits eða á verkstæði er kílómetrastaðan skráð í miðlægan gagnagrunn. Bara þetta eitt þrengir stórlega að svigrúmi svindlara til að hræra í kílómetrateljurunum til að hækka endursöluverð notaðra bíla. Ef allt í einu er komin miklu lægri kílómetratala á teljarann en var þegar hann kom síðast til skoðunar, er auðvelt að sjá á hvaða tímabili teljaranum var breytt og rekja síðan hvar bíllinnn hefur verið og í höndum hvers þegar breytingin var gerð. Þessi miðlægi gagnabanki tryggir því neytendur og eykur gagnsæi á heimamarkaði fyrir notaðra bíla.

Gallinn er bara sá að þessir gagnabankar eru ekki opnir yfir landamæri ríkja. Þegar fólk kaupir notaða bíla frá öðrum löndum er sú hætta alltaf fyrir hendi að óprúttnir seljendur skrúfi niður kílómetrateljarann áður en bíllinn er sseldur nýjum grandalausum kaupanda í öðru landi.