Kina slær Bandaríkin út
Það gengur víst ekki lengur að þræta – bílamarkaðurinn í Kína er orðinn stærri en sá bandaríski. Hann er orðinn það stór að þótt sá bandaríski næði vopnum sínum og yrði aftur sá sem hann var þegar best gekk, þá er sá kínverski orðinn svo stór og öflugur og það ört stækkandi að vonlítið þykir að Bandaríkin komist nokkru sinni aftur fram úr Kínverjum í þessu tilliti. Alls keyptu 13,5 milljón Kínverjar sér bíl á síðasta ári en „einungis“ 10,43 milljónir bíla seldust í Bandaríkjunum.
Á mesta blómatíma bandaríska bílamarkaðarins seldust árlega 16 til 17 milljón bílar árlega í Bandaríkjunum. Markaðsspámenn telja langt í það að slíkar sölutölur sjáist þar á næstu árum. Þeir telja að á næsta ári og árum megi búast við smá aukningu og að salan fari upp í þetta 11 til 11,5 milljón bíla en varla meir.
Kínverski markaðurinn sé hins vegar stækkandi með batnandi efnahag landsmanna og vaxandi millistétt. Á síðasta ári tók kínverska ríkið upp þann hátt að greiða kaupendum bíla styrk ef þeir veldu bíl með vél undir 1,6 lítrum að rúmtaki og geta brennt lífrænu eldsneyti. Styrkirnir örvuðu vissulega söluna, en þótt þessum greiðslu yrði hætt, telja markaðsspámenn að kínverski bílamarkaðurinn muni halda áfram um mörg ókomin ár að þenjast út um tveggja stafa prósentutölu árlega.
Með þessum mikla vexti kínverska bílamarkaðarins og reyndar bæði þess indverska og brasilíska. hefur auðvitað hlaupið vel á snærið hjá mörgum bílaframleiðendum. Í öllum þessum löndum hefur verið að myndast vel bjargálna millistétt sem þyrstir í að eignast eigið farartæki.
Sem dæmi um bílaframleiðanda sem nýtur góðs af þessum félagslegu breytingum er Chevrolet. Chevrolet var um áratugi fyrst og fremst á heimamarkaðinum Bandaríkjunum með sáralítinn útflutning. Það er gerbreytt. Í dag seljast um 58 prósent Chevroletbíla í Bandaríkjunum og stjórnendur GM telja að árið 2015 verði um 60 prósent sölunnar utan Bandaríkjanna og þar af muni Evrópumarkaðurinn taka við um milljón Chevrólettum árlega.