Kínadekk hvellsprakk
Hið árlega stóra gæðapróf á sumarhjólbörðum fer fram um þessar mundir hjá ADAC, systurfélagi FÍB í Þýskalandi og verða niðurstöður þess birtar í FÍB blaðinu sem út kemur í júní nk. Flestar hjólbarðategundir sem fást á Evrópska efnahagssvæðinu eru rannsakaðar að venju og þau algengustu á hverju markaðssvæði valin úr til birtingar.
Að þessu sinni eru óvenju mörg ódýr vörumerki af asískum uppruna prófuð og er skemmst frá að segja að sum þeirra spjara sig allt upp í þokkalega á þurrum vegum en flest illa eða afleitlega á votum vegi. Eitt þeirra, kínverska dekkið Chengshan reyndist í „sérflokki“ því það hvellsprakk þegar verið var að hraðaprófa það. Þær niðurstöður sem þegar liggja fyrir um ódýru austrænu dekkin eru þess eðlis að bifreiðaeigendum er eindregið ráðlagt að sniðganga þau.
Einn prófunarmanna segir að þær viðvaranir sem áður hafi verið gefnar gagnvart ódýru hjólbörðunum séu enn í fullu gildi. Verðið sé yfirleitt mjög lágt sem eðlilega freisti fólks. En eiginleikar hjólbarðanna, sérstaklega í bleytu séu yfirleitt svo lélegir að dekkin séu nánast stórháskaleg í akstri. Þegar svo hjólbarði af þessu tagi hvellspringur í hraðaprófi, sé mælirinn fullur.
Sumarhjólbarðar þurfa umfram vetrarhjólbarða að vera slitþolnir og þola hraðan akstur á sumarheitum og þurrum vegum langtímum saman en þeir þurfa líka að vera mynstraðir þannig að þeir hrindi vel vatni frá sér og haldi veggripi vel í bleytunni. En það eru sérstaklega góðir aksturseiginleikar í bleytunni sem framleiðendur ódýru hjólbarðanna ráða illa við meðan flestir vestrænu framleiðendurnir hafa fyrir löngu náð góðum tökum á þessu mikilvæga atriði.
Hér á Íslandi eru rigningar tíðar og oft mikil bleyta á vegum sem er stórhættuleg þar sem hjólför hafa myndast í slitlagið. Góðir eiginleikar hjólbarða í bleytu eru því lífsnauðsynlegir við íslenskar aðstæður. Sem dæmi um hversu misjafnir hjólbarðar geta verið að þessu leyti er að hemlunarvegalengd sama bíls á austrænum dekkjagangi í bleytu er miklu lengri en ef hann er á dekkjagangi af góðri tegund.
Í sumardekkjaprófuninni nú var t.d. gerð tilraun með að nauðhemla tveimur eins bílum á 80 km hraða. Annar bíllinn var á verstu bleytudekkjunum en hinn á þeim bestu. Þegar bíllinn á bestu dekkjunum hafði stöðvast brunaði bíllinn á þeim verstu framúr á 46 km hraða. Lengri hemlunarvegalengd verstu dekkjanna á við þau bestu skipti tugum metra.
Það er ADAC í Þýskalandi sem annast stóru sumarhjólbarðaprófunina fyrir systurfélög sín í Evrópu, þar á meðal FÍB. Niðurstöður verða birtar um frammistöðu á fjórða tug hjólbarðategunda fyrir fólksbíla í FÍB blaðinu sem út kemur í júní.