Kínastjarnan sem skín
Euro NCAP tilkynnti í morgun niðurstöður árekstrarprófunar á kínverska bílnum Qoros. Bíllinn hlýtur fullt hús eða fimm stjörnur og er þar með fyrsti hreinræktaði kínverski bíllinn sem jafnoki þeirra bestu í þessu tilliti. Auk Qoros voru einnig birtar niðurstöður fyrir nýja kynslóð Kia Carensi. Hann náði einnig fimm stjörnum.
Qoros er nýr bíll frá grunni. Hann er hannaður og byggður út frá ströungustu stöðlum sem gilda um bíla í Evrópu og N. Ameríku. Að þeim verkum hafa komið verk- og tæknifræðingar og hönnuðir sem áður störfuðu hjá m.a. Saab og Volvo. Vandað hefur verið til bílsins sem er fólksbíll í C stærðarflokknum (Golf flokknum) og einn sá stærsti þar. Sjá nánar hér.
Dr. Michiel van Ratingen stjórnarformaður Euro NCAP segir að það sé mjög ánægjulegt að nýr bílaframleiðandi sem Qoros er, hafi lagt jafn mikla áherslu á öryggi bíla sinna og hér sýni sig. Hjá Qoros hefðu menn áttað sig á því að neytendur eru orðnir vanir öruggum bílum. Þeir hafi og áttað sig á því að bíll sem kemur nýr inn á Evrópumarkaðinn muni verða rannsakaður mjög nákvæmlega og verið viðbúnir því.
Þeir kínversku bílar sem hingað til hafa verið árekstursprófaðir í Evrópu á vegum Euro NCAP eða með sömu aðferðum og aðferðafræði, hafa allir fengið mjög slæma útkomu. ADAC í Þýskalandi kallaði einn Kínabílinn hreina dauðagildru.Þessir dómar urðu til þess að markaðsátök sem hafin voru í Evrópu vegna kínverskra bíla runnu út í sandinn.