Kínverjar eignast þrotabú Fisker
Stærsti framleiðandi íhluta í bíla í Kína; Wanxiang Group, varð hæstbjóðandi í þrotabú bandaríska bílafyrirtækisins Fisker Automotive nýlega og eignaðist það fyrir 149,2 milljónir dollara á nauðungaruppboði.
Forstjóri Ameríkudeildar Wanxiang Group, Pin Ni að nafni, segir við Reuters fréttastofuna að ætlunin sé að koma framleiðslunni á rafmagns-lúxusbílnum Fisker Karma aftur í gang á þessu ári. Jafnframt verði haldið áfram þar sem frá var horfið við að þróa nýjan og ódýrari rafbíl sem byrjað var á áður en Fisker fór á hausinn árið 2012.
Fisker Karma bíllinn er lúxusbíll sem gengur alfarið fyrir rafmagni en í honum er bensínrafstöð sem fer sjálfvirkt í gang þegar lækka tekur á rafgeymunum. Bíllinn var settur saman í bílaverksmiðju Valmet í Finnlandi og svo verður áfram að sögn Pin Ni, hvað svo sem síðar kann að verða.
Áður en framleiðslan stöðvaðist 2012 kostaði nýr Fisker Karma frá 100 þúsund dollurum. Alls seldust um 1.800 bílar og er algengt verð á notuðum Fisker Karma bílum á bílasölum í Bandaríkjunum 55-70 þúsund dollarar fyrir bíla sem ekið hefur verið 15 þús. mílur eða minna.