Kínverjar þreifa fyrir sér á evrópskum bílamarkaði
Xinhua - nokkuð líkur Toyota, ekki síst einkennismerkið.
Bílastórverslun í Belgíu sem heitir Cardoen er að undirbúa sölu á kínverskum bílum í Evrópu. Hjá fyrirtækinu fer nú fram talsvert umfangsmikil sýning á fimm tegundum og rúmlega tug gerða kínverskra bíla. Farið er með sýninguna milli útsölustaða Cardoen og er sýningin þrjá daga á hverjum stað. Nú um helgina er sýningin stödd í bænum Gent í norðanverðri Belgíu. Sýndir eru bílar af tegundum sem heita Hafei, Changfeng, Dongnan, Xiali og Changh.
Tony Nai, talsmaður Cardoen segir við AP fréttastofuna að með sýningunni sé verið að kanna viðbrögð bílakaupenda og söluaðila. Fólki gefist kostur á að skoða bílana vandlega og reynsluaka þeim og segja síðan á þeim kost og löst. Bílarnir hafa ekki verið gerðarviðurkenndir í Evrópu en verið er að vinna að því segir Nai.
Gerðarviðurkenning er forsenda þess að skrá megi bílana til notkunar í Evrópu þannig að sýningarbílarnir verða sendir til baka til Kína þegar sýningarhaldinu lýkur í júlíbyrjun að sögn Tony Nai. Hann segir að athugasemdir sem gerðar verði við bílana verði teknar til greina og viðeigandi endurbætur verði gerðar á þeim bílum sem svo verði í boði þegar salan hefst í Evrópu 2008.
Cardoen er ein öflugasta bílastórverslun í Evrópu með tíu útsölustaði í Belgíu og Hollandi þar sem seldar eru flestar algengustu tegundir og gerði bíla. Cardoen var fyrsta bílaverslunin sem hóf að selja hinn ódýra Dacia/Renault Logan í V. Evrópu. Cardoen verður hins vegar ekki fyrst með kínverska bíla í álfunni því að annað hollensk-belgískt fyrirtæki er þegar á markaði með kínverska jeppann Landwind. Salan á Landwind fór vel af stað í upphafi – árið 2005 - en eftir að ADAC, hið þýska systurfélag FÍB árekstursprófaði Landwind jeppa samkvæmt sömu stöðlum og EuroNCAP beitir við sínar árekstursprófanur, sló nokkuð í bakseglin því að bíllinn kom mjög illa út úr árekstursprófinu.
Varla þarf að efast um að einhverjir séu byrjaðir að huga að innflutningi á bílum frá Kína til Íslands enda gæti það orðið upphaf að einhverju svipuðu ævintýri og innrás japanskra bíla á íslenskan markað var í byrjun áttunda áratugarins og innrás kóreskra bíla um 20 árum síðar. Ekkert hefur þó fengist staðfest í þessum efnum – ennþá.