Kínversk-franskir rafmagnsbílar
Franska bílasamsteypan PSA (Peugeot-Citroen-DS) og samstarfsaðili þeirra í Kína; Dongfeng, vinna sameiginlega að hönnun, þróun og framleiðslu margra gerða og stærða rafmagnsbíla. Fyrsti sameiginlegi rafbíllinn er væntanlegur á markað 2019.
Samkomulag aðilanna var kynnt í gær á blaðamannafundi í Kína og var greinilegt þar að mönnum er fyllsta alvara. Botninn eða grunnplatan hefur þegar verið hönnuð. Hún nefnist CMP og er samsett úr einingum sem ráða má saman á marga vegu eftir því hve stór bíllinn á að verða og til hvers á að nota hann og hverskonar drifbúnaður verður notaður.
Bílarnir verða framleiddir undir merkjum Citroen, Peugeot, DS og Dongfeng. Frumgerð þess fyrsta er nú þegar á þróunar- og reynsluakstursstigi og kemur á almennan markað í Evrópu, Kína og víðar árið 2019. Bílarnir innan þessarar væntanlega rafbílafjölskylda PSA og Dongfeng verða af ýmsum stærðum, allt frá smábílum upp í efri millistærðarflokk.