Kínversk-sænskt samstarf
Nýlega var haldin opnunarathöfn nýrrar kínversk-sænskrar rannsóknastöðvar umferðaröryggis í Bejing í Kína. Á vissan hátt markar hún tímamót í kínversk-sænsku samstarfi í bílaframleiðslu, því að rannsóknastöðin er á vegum Volvo Car Group, móðurfélags Volvo Personvagnar APS en Volvo Car Group er í eigu kínverska bílafyrirtækisins Geely.
Á sinn hátt er þessi opnun einnig tímamótaviðburður því að Kínversk bílaframleiðsla hefur ekki beinlínis verið orðuð við örugga bíla framundir þetta. Volvo á hinn bóginn hefur um áratugi verið fremst bílaframleiðenda í heiminum í framleiðslu öruggra bíla.
Auk fræðimanna frá Volvo mun fólk frá Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg, rannsóknastoofnun kínversku vegagerðarinnar og Tongji-háskólanum í Shanghai koma að rannsóknastarfi nýju stöðvavrinnar. Þá munu ríkisstjórnir Kína og Svíþjóðar styrkja starfið fjárhagslega.
Kína er stærsti bílamarkaður veraldar um þessar mundir og þjóðin er sem óðast að breytast í bílaþjóð. Eftir því sem bílum hefur fjölgað hafa umferðaröryggismál orðið sífellt mikilvægari í hugum almennings og opinberra aðila. Í opinberri heimsókn Wen Jiabaos fyrrv. forsætisráðherra Kína til Svíþjóðar í apríl sl. undirrituðu ríkisstjórnir Kína og Svíþjóðar viljayfirlýsingu um slysarannsóknir og er nýja stöðin ávöxtur þess.
Yfirlýstur tilgangur rannsóknastöðvarinnar er að bæta umferðaröryggi í bæði Kína og Svíþjóð, m.a. með því að rannsaka orsakir og aðdraganda umferðarslysa og þróa nýjan tæknibúnað sem gripið getur inn í og hindrað slíka atburðarás. Motormagasinet greindi frá þessu.