Kínverskar eftirlíkingar dregnar til baka

http://www.fib.is/myndir/Smart-Noble.jpghttp://www.fib.is/myndir/Smart_alv%F6ru.jpg

Það er kínverska eftirlíkingin Noble sem er á myndinni til vinstri. Til hægri er raunverulegur Smart Fortwo.

Tvær gerðir kínverskra bíla sem eru augljósar eftirlíkingar annars vegar Smart Fortwo og BMW X5 og sýna átti á bílasýningunni í Frankfurt sem opnuð verður í næstu viku hafa verið dregnar til baka og verða ekki á sýningunni.

Báðar eftirlíkingarnar eru frá sama framleiðandanum sem heitir Shuanghuan. Annar bílanna sem nefnist Noble líkist Smart Fortwo svo mjög að fljótt á litið sýnast bílarnir eins. Mercedes Car Group sem á Smart mótmælti harðlega fyrirætlununm um að sýna bílinn í Frankfurt og hótaði lögsókn á hendur Kínverjum. Hin eftirlíkingin nefnist CEO og líkist mjög jepplingnum BMW X5.

Talsmaður Shuanghuan skýrði málið skömmu fyrir síðustu helgi þannig að einhverjir bílasalar hefðu viljað að bílarnir yrðu sýndir í Frankfurt en þeir Kínamenn ekki haft áhuga á því. Þegar þýska blaðið Auto Motor & Sport spurði um lögsóknarhótun Mercedes vegna útlitsfölsunarinnar vildi hann lítið annað segja en að allir bílar frá Shunghuan væru löglegir.

Þetta mál  hefur verið talsvert áberandi í fréttum þýskra fjölmiðla og í opinberri heimsókn Angelu Merkel kanslara Þýskalands sagði hún Kínverjum að eftirlíkingar af þessu tagi væru vandræðamál. Hún hvatti Kínverja síðan til að virða betur höfundarrétt og brjóta ekki á heiðri hugverkshöfunda.