Kínverski rafbílaframleiðandinn Xiaomi með öfluga innkomu - grónir framleiðendur í vanda
Þýskir bílaframleiðendur eru vandræðum í Kína. Þeir hafa verið leiðandi í sölu á hágæða kraftmiklum bílum á kínverska markaðnum. Núna finna þeir fyrir öflugri samkeppni frá kínverskum keppinautum sem hafa sett ný viðmið varðandi hágæða bíla. Núna er mest eftirspurn í Kína eftir rafknúnum, snjöllum og hagkvæmum bílum.
Margir kínverskir bílar líkjast þýskum bílum í ytri hönnun. Hinn vinsæli Xiaomi SU7, sem líkist mjög rafsportbílnum Porsche Taycan, keppir einnig við Taycan hvað varðar kraft og hágæða hemlagæði. Xiaomi SU7er hlaðinn tæknibúnaði og samþættri gervigreind sem er staðalbúnaður. Gervigreindin aðstoðar við að leggja í bílastæði og spilar uppáhalds lag ökumanns þegar stigið er um borð. Útsöluverðið á SU7 í Kína er aðeins um helmingur þess sem Taycan kostar á Kínamarkaði.
Snjallsímafyrirtæki
Xiaomi er næst stærsti snjallsímaframleiðandi heimsins um þessar mundir á eftir Samsung. Xiaomi var stofnað 2010 í Beijing og árið 2021 setti fyrirtækið á laggirnar Xiaomi Auto með það að markmiði að framleiða snjalla rafbíla. Í lok árs 2023 frumsýndi fyrirtækið sinn fyrsta rafbíl, SU7. Bíllinn kom á markað 28. mars 2024 og náði yfir 100.000 bíla sölu í Kína í fyrra.
Porsche og þýskir bílaframleiðendur
Porsche hefur orðið illa fyrir barðinu á öflugri innkomu kínverskra bílaframleiðenda á heimaslóðum í Kína. Porsche greindi frá því í janúar að sala í Kína hefði dregist saman um 28 prósent árið 2024. Á sama tíma jókst salan á Porsche á öllum öðrum mörkuðum heimsins. Samdrátturinn í Kína vegur það þungt að heildarsala fyrirtækisins dróst saman um 3 prósent á heimsvísu 2024 samanborið við árið á undan.
Í mörg ár treystu þýskir bílaframleiðendur á kínverska markaðinn sem bætti upp fyrir samdrátt á öðrum mörkuðum. Á vissan hátt sofnuðu þýskir framleiðendur á verðinum og náðu ekki að halda í við öfluga tækniþróun í Kína og hjá Tesla. Þróun og tæknibúnaður var ekki í samræmi í við miklar framfarir í Kína. Kínverskir neytendur gera ráð fyrir að nýir rafbílar séu búnir háþróuðum hugbúnaði og gervigreind.
Þýskir framleiðendur líkt og rótgrónir vestrænir framleiðendur virðast hafa vanmetið ríka nýsköpun og tækniþróun í Kína. Kínverskir rafbílaframleiðendur hafa sett ný viðmið varðandi tækni- og hugbúnað rafbíla.
Nýsköpun og hátækni
Hátækni hugbúnaður, sjálfvirkni í akstri og fjölbreyttar appstýringar eru staðalbúnaður í kínverskum rafbílum. Þetta eykur á vanda evrópskra bílaframleiðenda sem fram að þessu hafa treyst á verðmæt vörumerki og góða framlegð af sölu á margvíslegum aukabúnaði.
Óvissan varðandi hótanir Trumps um tolla á evrópska og annarra þjóða framleiðendur skapar mikinn þrýsting. Tollar geta skaðað Porsche umfram aðra þýska framleiðendur þar sem Porsche bílar á Bandaríkjamarkaði eru alfarið framleiddir í Þýskalandi.
Um miðjan febrúar kom fram að Porsche áætlaði að leggja niður allt að 1.900 störf á næstu árum í Þýskalandi vegna minni eftirspurnar. Sala á rafmagnsbílnum Taycan dróst saman um tæpan helming á síðasta ári og salan á Panamera tvinnbílnum dróst saman um 13 prósent 2024. Stór þáttur í þessum samdrætti er minni áhugi kínverskra kaupenda.
SU7 er ekki enn fáanlegur til útflutnings, en nokkrar gerðir hafa náð til Bandaríkjanna. Xiaomi hefur einnig verið að prófa einfaldari gerð af SU7 Ultra, sem á að kom á markað í Kína í mars.
Seint í mars tilkynnti Xiaomi að ákveðið hefði verið á grundvelli góðs gengis fyrirtækisins að auka við áætlaðar afhendingar á rafbílum í ár úr 300.000 bílum í 350.000 bíla.
Umferðarslys skapar vandamál hjá Xiaomi
Í þessari viku hafa hlutabréf í Xiaomi verið að lækka eftir að Xiaomi staðfesti á þriðjudag að SU7 bíll hefði lent í slysi á hraðbraut í Kína. Fram kom i fjölmiðlum að þrír hefðu látist í slysinu. Forstjóri Xiaomi, Lei Jun, lofaði í viðtölum að vinna með lögreglunni við rannsókn málsins.
Atvikið mun hafa áhrif á traust markaðarins til Xiaomi rafbíla en fyrirtækið hefur notið mikillar velgengni. Slysið mun einnig kalla fram nánari athugun á snjallaksturs hugbúnaði í mörgum bílum.