Kínverskir bílar á sýningunni í Detroit
Geely FC á bílasýningunni í Detroit.
Kínverskir bílar sem heita nöfnum eins og Chamco, Geely og Chang Feng eru til sýnis á bílasýningunni í Detroit sem senn lýkur. Bílablaðamönnum sem skoðað hafa bílana, (sumum að minnsta kosti) þykja þeir heldur frumstæðir og frágangur á sumum þeirra svo slæmur að líkja má þeim við illa viðgerða tjónabíla.
Tæknilega marka þessir bílar engin tímamót en sumir þeirra eru þó ekki neitt sérlega langt afturúr evrópskum og bandarískum bílum í ódýrari kantinum. Þeir eru t.d. með eldsneytisinnsprautun frá Bosch eða Siemens og með ABS hemla.
Geely sýnir nokkra fólksbíla af meðalstærð. Í Geely bílunum er talsvert gert úr því að í þeim sé búnaður sem kemur í veg fyrir slys ef skyndilega hvellspringur undir bílnum. Kerfið er sagt vinna þannig að skynjarar senda boð til ABS hemlakerfisins þegar hvellspringur um að grípa inn í atburðarásina og hemla bílnum.
Óneitanlega hljómar það einkennilega að gera það að einhverju stórmáli á Vesturlöndum í það minnsta, að bíll sé með búnaði til að forðast slys ef hvellspringur. Hjólbarðar á Vesturlöndum eru gæðaprófaðir og verða að uppfylla lágmarks gæðakröfur og vera með sérstaka merkingu sem gefur það til kynna. Að öðrum kosti eiga þeir ekki að fá aðgang að markaði þótt af og til sleppi óhæfir hjólbarðar inn um nálaraugað.
Það kann svosem að vera að hvellsprungin dekk séu vandamál í Kína en varla á Vesturlöndum lengur. Það er því verið að auglýsa búnað í þessum Geely bílum sem engin eftirspurn er eftir.
En annað í þessu er það að ef þessi búnaður klossbremsar bílnum ef dekk hvellspringur þá er það varla til bóta heldur þvert á móti gæti allt eins hreinlega valdið slysi. Sá sem þessi orð ritar átti á sínum yngri árum ýmsa misgóða bíla sem stundum voru, vegna blankheita, illa dekkjaðir. Eitt sinn hvellsprakk á framhjóli á rúmlega 100 km hraða. Við það varð talsverður titringur og hávaði en ekkert sérstakt annað gerðist. Hefði verið stigið harkalega á bremsupedalann og klossbremsað hefði bíllinn hins vegar að líkindum snúist á veginum og afleiðingarnar þar með getað orðið slæmar.
Mörgum árum síðar lenti bílstjóri á stórum fullhlöðnum bensínflutningabíl í því að nýtt (ódýrt kínverskt) dekk á framhjóli hvellsprakk á rúmlega 70 km hraða. Verulega tók í stýrið á flutningabílnum en bílstjórinn bjargaði málinu með því að láta hemlafetilinn að mestu ósnertan en hægja á bílnum með því að gíra hann niður. En það kostaði talsverð átök á stýrinu engu að síður enda trukkurinn og tengivagninn samtals um eða yfir 40 tonn að þyngd. Nokkuð er víst að einhverskonar sjálfvirk nauðhemlun hefði aukið á vandann.