Kínverskur bíll árekstrarprófaður af Euro NCAP
Euro NCAP sendi nú í morgun frá sér niðurstöður árekstrarprófana á 13 bílum. Meðal bílanna 13 er kínverskur fjölnotabíll af Landwind gerð en þetta er í fyrsta sinn EuroNCAP árekstursprófar kínverskan bíl. Árið 2005 árekstursprófaði ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi, bæði Landwind jeppling og annan kínverskan fólksbíl með nákvæmlega sömu aðferðum og EuroNCAP viðhefur. Árangur kínversku bílanna í ADAC árekstursprófunum var hraklegur og fengu þeir enga stjörnu og þann dóm að þeir væru dauðagildrur.
Hinir kínversku framleiðendur Landwind hafa vissulega tekið sig verulega á og hlaut CV9 bíllinn nú tvær stjörnur. EuroNCAP gagnrýnir hversu fátækur bíllinn er af öryggisbúnaði. Í hann vanti t.d. hliðaröryggispúða og ESC skrikvörn.
Að öðru leyti eru niðurstöður EuroNCAP nú þær að 9 bílar af 13 hlutu fullt hús eða fimm stjörnur, þrír hlutu fjórar stjörnur og einn – Landwind bíllinn - tvær.
Umboðsaðilar Landwind í Evrópu gera nú aðra tilraun til sóknar á evrópska bílamarkaðinn með fjölnotabílinn CV9, en tilraunin með jepplinginn árið 2005 rann út í sandinn eftir að ADAC árekstursprófaði bílinn. Landwind bíllinn er sagður mjög endurbættur og sérstaklega styrktur svo hann uppfylli ströngustu kröfur Evrópumarkaðarins. En þegar hann er borinn saman við sambærilega bíla kemur í ljós að öryggisbúnaðurinn er fátæklegur, hann vantar bæði ESC stöðugleikabúnað og hliðarloftpúða sem fyrr segir og einnig búnað í hnakkapúða sem varnar háls- og höfuðmeiðslum. Hann hlýtur því að öllu samanlögðu heildareinkunnina tvær stjörnur en var þó nærri því að hljóta þrjár stjörnur fyrir vernd fullorðinna.
Dr Michiel van Ratingen stjórnarformaður Euro NCAP segir að ljóst sé að bílar frá Kína, Indlandi og öðrum vaxandi iðnríkjum muni streyma í vaxandi mæli inn á evrópska vegi. Euro NCAP ætli að sjá til þess að neytendur fái réttar upplýsingar um hversu öruggir þessir bílar séu. Traustar upplýsingar um mismunandi öryggi bíla veiti framleiðendum aðhald og hvetji þá til að gera sífellt betur og standa þeim bestu á sporði. „Við erum viss um að Landwind og aðrir bílar frá þessum löndum munu batna og rísa undir væntingum okkar þegar fram líða stundir,“ sagði van Ratingen.
Dæmi um bíl sem hefur verið verulega endurbættur er Kia Venga eftir að hann kom nýr á Evrópumarkað. Hann var árekstursprófaður í febrúar 2010 og þá komu í ljós veikleikar við framaná-árekstur og hlaut bíllinn fjórar stjörnur þá. Nú hefur bíllinn verið endurbættur og styrktur og hlýtur hann fullt hús - fimm stjörnur.
Einungis einn bíll í hágæða- eða lúxusflokki, er í þessum 13 bíla hópi. Það er Jaguar XF. Lúxusbílarnir eru yfirleitt mjög vel búnir og undantekningarlítið fimm stjörnu bílar. Hið undarlega gerist nú að Jaguarinn hlýtur einungis fjórar stjörnur. Öryggi fullorðinna og barna í bílnum þótti fyrir borð borið m.a. vegna þess hve hliðarstólpi gefur mikið eftir við árekstur frá hlið.
Volkswagen Amarok pallbíllinn hlaut fjórar stjörnur en hann hins vegar reyndist vera sá pallbíll sem EuroNCAP hefur árekstursprófað, sem besta vörn veitir gangandi sem fyrir bílnum verða. Hins vegar reyndist vörn gegn brjóstholsmeiðslum rýr við árekstur frá hlið. Annar VW bíll; fjölnotabíllinn VW Sharan sem byggður er á sömu grunnplötu og hinn nýi Seat Alhambra og með svipaða innréttingu og öryggisbúnað fékk eins og Seat-bróðirinn fimm stjörnur.
Aðrir sem hlutu fimm stjörnur nú eru Audi A1, BMW Mini Countryman, Ford C-MAX og Ford Grand C-MAX, Kia Sportage, Opel Meriva og hinn nýi VW Passat. Ný Nissan Micra hlaut fjórar stjörnur.