Kínverskur bjarghringur Saab sokkinn?
Reuters fréttastofan greinir frá því í morgun að ekkert verði úr samstarfi og samvinnu Saab og kínverska bíla- og íhlutaframleiðandans Hawtai Motor Group. Aðaleigandi Saab, hið hollenska Spyker, eru nú sagt leita dauðaleit að öðrum aðila sem haldið gæti Saab floti og komið framleiðslunni í gang á nýjan leik.
Hawtai og Spyker tilkynntu í síðustu viku um væntanlegt samstarf. Í því fólst að Kínverjarnir legðu Saab til 150 milljón evrur. Svenska Dagbladet greinir frá því í morgun að sendinefnd frá Hawtai sem skoðaði Saab verksmiðjurnar í síðustu viku hafi hreinlega ekki litist á blikuna. Ástandið hafi verið verra en Kínverjarnir höfðu áður haldið og hefðu þeir því viljað semja upp á nýtt við Victor Muller, aðaleiganda Spyker. Þegar það gekk ekki hafi þeir rift samningunum.
Í fréttatilkynningu frá Spyker segir að Saab og Hawtai séu ennþá að ræða samvinnu sín í milli. Jafnframt sé áfram leitað meðal annarra kínverskra bílafyrirtækja að samstarfsaðilum um framleiðslu, tækniþróun og dreifingu afurða. Meðal þeirra fyrirtækja sem rætt er við séu BAIC, Great Wall Company og Youngman Automobile.