Klílómetrasvikin: Aðgerðir til að endurheimta traust og bæta tjón
Hvernig er hægt að bregðast við því óöryggi og tjóni sem hefur skapast vegna ólögmætrar sölu bílaleigubíla með falsaðri kílómetrastöðu? Hvernig er hægt að endurheimta traust almennings og vinna að úrbótum til framtíðar? Þetta og fleira til var rætt á fundi sem FÍB, Samtaka ferðaþjónustunnar, Neytendasamtakanna, Bílgreinasambandsins og Samgöngustofu í framhaldi af fréttum um sviksamlegt hátterni Procar bílaleigunnar.
Fram kom að Bílgreinasambandið ætlar á næstunni að opna fyrir aðgang á vefsíðu sinni (bgs.is) að ökutækjaskrá fyrir þá sem vilja kanna hvort tiltekinn bíll hafi verið til umráða hjá bílaleigu en í eigu fjármögnunarfyrirtækis, ásamt því að sjá skoðunarferil bílsins og fleira. Upplýsingar um umráðamenn eru alla jafna ekki sýnilegar almenningi.
Þá hafa nokkur bílaumboð hvatt bíleigendur til að hafa samband til að fá aðstoð ef grunur leikur á svikinni kílómetrastöðu. FÍB og Bílgreinasambandið hafa kannað hjá bílaumboðunum hvort aksturstölvur geymi raunverulegan akstur þó átt hafi verið við mælastöðu, en svo virðist ekki vera nema í örfáum tilfellum í dýrari gerðum bíla. Mögulega geta upplýsingar um gangstundir bílvéla varpað ljósi á heildarakstur.
Fram kom hjá fulltrúum Samgöngustofu að í þessari viku verði bréf sent til allra 140 skráðra bílaleiga þar sem óskað verður eftir upplýsingum um fyrirkomulag skráninga á kílómetrastöðu og hvernig best sé að koma í veg fyrir svik af því tagi sem hér um ræðir. Samgöngustofa ítrekar að opinbert eftirlit geti aldrei komið að fullu í veg fyrir brotastarfsemi. Aftur á móti geti verið ástæða til að gera úttektir með stikkprufum. Fram kom að Samgöngustofa mun ráðast í breytingar á ökutækjaskrá þannig að ef kílómetrastaða er skráð lægri við skoðun en áður, þá verði sérstök athygli vakin á því. Á það var hins vegar bent að alla jafna eru bílaleigubílar seldir áður en til fyrstu skoðunar kemur fjórum árum frá skráningu.
Rætt var hvort krefjast ætti árlegrar skoðunar bílaleigubíla þar sem þeim er ekið talsvert meira á ári en venjulegum einkabíl. FÍB og Neytendasamtökin hafa talið eðlilegt að tryggja hagsmuni og öryggi almennings að þessu leyti með svipuðum hætti og í nágrannalöndunum. FÍB hefur bent á úrtaksskoðanir á vegum Samgöngustofu og samanburður útleigusamninga og kílómetrastöðu sem eina leið til lausnar í þessum efnum. Fulltrúi SAF benti á að það væri hagsmunamál bílaleiga að bílar þeirra væru ávallt í góðu ástandi. Gott viðhald væri forgangsmál hjá fyrirtækjunum og árleg skoðun bætti þar litlu við.
Fundarmenn voru sammála um að hvetja lögreglu til að hraða rannsókn á þeim svikamálum sem upp hafa komið. Sem fyrst þyrfti að komast til botns í því við hvaða bíla hefði verið átt og hvort slík vinnubrögð hefðu verið stunduð víðar en hjá Procar. Þannig mætti ganga úr skugga um umfang svikanna og aðstoða fólk við að leita réttar síns. Á það var bent að hér á landi væru um 25 þúsund skráðir bílaleigubílar en grunur um falsaða kílómetrastöðu beindist aðeins að nokkur hundruð þeirra.
Ákveðið var að hittast aftur fljótlega til að meta framvinduna. Vonast er til að þetta samstarf marki upphaf að vinnu til framtíðar til að tryggja sem best hag neytenda á markaði með alla notaða bíla.
Mynd: Frá samstarfsfundinum í húsakynnum FÍB. Frá vinstri: Björn Kristjánsson og Runólfur Ólafsson frá FÍB, Breki Karlsson frá Neytendasamtökunum, Óðinn Valdimarsson og Þórir Skarphéðinsson frá Bílgreinasambandinu, Jóhannes Þór Skúlason frá SAF, Þórhildur Elín Elínarsdóttir, Guðmundur Helgason og Þórólfur Árnason frá Samgöngustofu.