Koenigsegg hættur við að kaupa Saab
Sænskir fjölmiðlar greindu frá því síðdegis í gær að Koenigsegg Group, fjárfestahópur sportbílamannsins Christian von Koenigsegg, væri hættur við að kaupa Saab. Ákvörðun um þetta mun hafa verið tekin á mánudaginn var. Framtíð Saab er því í meiri óvissu en nokkru sinni fyrr og veruleg hætta á að Saab bílaframleiðsla heyri brátt sögunni til. Stjórnarfundur verður hjá GM, móðurfélagi Saab þann 1. desember og verði ekkert tilboð eða kaupandi í sjónmáli þá, er líklegt að telja megi þetta fornfræga bílamerki af.
Höfuðstöðvar Saab er í borginni Trollhattan sem er að fólksfjölda svipaðrar stærðar og Reykjavík. Borgin er nokkurskonar eins fyrirtækis borg þar sem flest snýst í kring um Saab. Deyi Saab verða áhrifin á borgina og íbúa hennar mjög slæm.
Christian von Koenigsegg sagði við sænska fjölmiðla í gær að söluferlið hefði dregist von úr viti. Kaupin á Saab hefðu upphaflega átt að vera frágengin í september sl. Vegna dráttarins væri Saab í raun að blæða út og því gæti hann og hans menn ekki ábyrgst að viðskiptaáætlun þeirra stæðist. Þar sem útlit væri fyrir að málið dragist enn á langinn vildu þeir einfaldlega ekki hætta bæði sínum og annarra manna fjármunum frekar í verkefni sem ekki væri lengur undir þeirra stjórn. Því drægju þeir sig til baka.
Eins og sagt hefur verið í frétt hér á FÍB vefnum var sala nýrra bíla í Evrópu í októbermánuði allgóð. Það gildir þó ekki um Saab því að Saab bílar seldust nánast ekkert. Svo virtist sem kaupendur Saab bíla vildu bíða eftir nýjum gerðum sem boðaðar hafa verið á markað um og upp úr áramótum. Hvort nýju gerðirnar yfirleitt koma á markað svo einhverju nemi er hins vegar óvíst nú.