Koleos – fyrsti jepplingurinn frá Renault
11.02.2008
Renault Koleos.
Renault sýnir á bílasýningunni í Genf sem hefst 4. mars nk, nýjan jeppling; Renault Koleos. Í frétt frá Renault segir að þetta sé fyrsti Renault jepplingurinn nokkru sinni. Hann sé hannaður af hönnuðum Renault, þróaður hjá Nissan og byggður hjá Renalt Samsung í Kóreu.
Koleos er fyrsti Renault bíllinn sem er fjórhjóladrifinn frá upphafi. Fjórhjóladrifbúnaðurinn sé svipaður og í Nissan X-Trail. Í venjulegum vegaakstri sé drifið á framhjólum en þegar á reynir miðlar tölva drifi til afturhjólanna og getur allt að helmingur drifátaksins verið á afturhjólum.
Renault Koleos hefur ESC stöðugleikabúnað sem staðalbúnað, sem og sjálfvirka hemlun sem kemur í veg fyrir að bíllinn renni afturábak í bratta þegar taka skal af stað.