Koltrefjar úr barrtrjám

Sænskur doktorsnemi sem rannsakar barrtré hefur komist að því að úr trjámassa þeirra má framleiða koltrefjaefni með a.m.k. 30% minni tilkostnaði en nú er gert. Koltrefjaefni hafa alla tíð verið og eru framleidd úr olíu og eru mjög dýr.

http://www.fib.is/myndir/Ida_Norberg.jpg
Ida Norberg.

Doktorsneminn sem heitir Ida Norberg telur ljóst að nota megi efni sem nefnist lignin úr barrtrjám sem hráefni í framleiðslu á koltrefjaefnum. Koltrefjar eru mjög sterkar en jafnframt léttar og því góður og eftirsóttur efniviður í flugvélar, bíla, margskonar hlífðarfatnað eins og t.d. mótorhjólagalla, svo fátt sé nefnt.  En sé aðferð Idu Norberg notuð lækkar framleiðslukostnaðurinn um 30 prósent samkvæmt útreikningum sem gerðir hafa verið  hjá Oak Ridge National Laboratory í Bandaríkjunum.

-Markmið rannsókna minna hefur verið að reyna að finna leið sem jafnframt er hagkvæm,  til að framleiða koltrefjaefni úr efninu lignin sem er uppistöðuefni í frumuveggjum trjáa og plantna og bindiefni milli þeirra. Þetta hefur tekist. Þá hefur okkur tekist það sem engum hefur áður tekist - að nota barrtré sem hráefni. Þau eru heppileg í þessu skyni því að lignin er um þriðjungur þeirra efna sem barrtrén eru samsett úr.  Þetta eru í stuttu máli niðurstöður doktorsverkefnis míns, segir Ida Norberg við Motormagasinet í Svíþjóð.

Koltrefjar, sem og flest plastefni hafa alla tíð verið framleidd úr hráefnum sem fengin eru úr olíulindum. Rannsókn Idu Norberg leiðir hins vegar í ljós að þess í stað er hægt að framleiða koltrefjarnar á sjálfbæran hátt úr endurnýjanlegum hráefnum og á mun ódýrari hátt í ofanálag. Eftirspurn eftir koltrefjaefnum er mjög mikil og vaxandi og því hlýtur uppgötvun hins sænska doktorsnema að vera afar þýðingarmikil.