Kona í Formúluna?
Áhugafólk um Formúlu 1 bíður nú spennt eftir því hvort Maria de Villota frá Spáni verði nýr Formúluökumaður í liði Lotus Renault á næsta keppnistímabili. Flest bendir reyndar til að svo verði. Aðeins einu sinni áður hefur kona keppt í Formúlu 1. Það var árið 1991, en þá tók Giovanna Amati þátt í þremur keppnislotum Formúlunnar fyrir Brabham.
Maria de Villota sem verður 32 ára í janúar nk. á að baki langan og farsælan feril í bílaíþróttum. Evrópskir fjölmiðlar greina frá því að innganga hennar í Lotus Renault liðið hafi verið á döfinni all lengi en farið mjög leynt. M.a. hafi hún í ágústmánuði sl. reynsluekið Formúlubíl Renault á Paul Ricard-brautinni daglangt. Liðsstjóri Lotus Renault segir við Auto Motor & Sport að hún hafi ekki brugðist þeim vonum sem bundnar voru við hana. Hún hafi lagt sig fram um að kynnast fyrst bílnum og aukið svo hraðann stig af stigi uns hún hafi náð mjög góðum brautartíma. –Hún gerði ekki ein einustu mistök allan daginn, segir liðsstjórinn, Eric Boullier.
Ljóst er að Lotus Renault liðið sækist eftir Maríu því eftir reynsludaginn á Paul Ricard-brautinni voru lögð fyrir hana drög að samningi. Það er því fremur líklegt að Maria de Villota verði liðsfélagi Kimi Räikkönen á 2012 keppnistímabilinu sem senn hefst. Aðrir sem sagðir eru koma til greina eru Roman Grosjean og jafnvel Robert Kubica.
Maria de Villota hefur lengi verið þátttakandi í bílasporti og verið farsæll ökumaður í Formúlu 3, GT kappakstri og keppt fyrir Spán í hópi úrvalsökumanna (Superleague). Faðir hennar er Emilio de Villota en hann var þekktur Formúlu 1 ökumaður á áttunda áratuginum.