Könnun FÍB staðfestir að neytendur ná árangri með aðgerðum gegn tryggingafélögunum
Könnun FÍB dagana fyrir páska staðfestir jákvæða neytendahegðun gegn tryggingafélögunum. Rúmlega eitt þúsund manns tóku þátt í könnuninni og sögðust 43% hafa leitað tilboða í tryggingar sínar nýlega og flestir fengið lækkun iðgjalda. 45% sögðust eiga eftir að leita tilboða í því skyni að fá betri kjör á tryggingunum.
FÍB telur engan vafa leika á að þessi óvenju mikla hreyfing neytenda sé sprottin af andúð á óhóflegum arðgreiðsluáformum tveggja tryggingafélaga. Ljóst er að tryggingatakar sætta sig ekki við að fjármagna arðgreiðslur félaganna með háum iðgjöldum. Fjöldi tryggingataka hefur ennfremur áttað sig á því að nú er hægt að segja tryggingum upp með mánaðar fyrirvara til að flytja þær annað, en áður var það aðeins hægt einu sinni á ári.
Hrein og klár græðgi hefur skaðað orðspor tryggingafélaganna varanlega. Ekki er aðeins við þau að sakast. Fjármálaeftirlitið ber mikla ábyrgð. Samkvæmt lögum og eigin markmiðum er FME skylt að gæta hagsmuna almennings gagnvart tryggingafélögunum. FME gerði hins vegar ekkert til að stöðva gripdeildir tryggingafélaganna. Þvert á móti studdi FME þessi áform með ráðum og dáð.
Könnun FÍB fór fram á vefsíðu félagsins og stóð frá Skírdegi til Páskadags og var öllum opin. 1022 tóku þátt. Spurningar, svarmöguleikar og niðurstöður voru sem hér segir:
Okkur leikur hugur á að vita hvort umræða síðustu daga um tryggingafélögin hefur leitt til aðgerða af þinni hálfu til að fá betri kjör á tryggingum heimilisins. Veldu það svar sem þér finnst best eiga við um þínar aðstæður.
Ég bað tryggingafélag mitt um lægri iðgjöld, en fékk ekki lækkun og gerði ekkert frekar. : 4%
Ég bað tryggingafélag mitt um lægri iðgjöld og þau voru lækkuð. : 12%
Ég óskaði eftir tilboði í tryggingarnar hjá mörgum tryggingafélögum, þar á meðal mínu, en fékk ekki lækkun á iðgjöldunum. : 5%
Ég óskaði eftir tilboði í tryggingarnar hjá mörgum tryggingafélögum, þar á meðal mínu, og fékk lækkun á iðgjöldunum : 6%
Ég ákvað að segja upp tryggingum hjá mínu tryggingafélagi og fór með þær annað en fékk ekki lægri iðgjöld þar. : 2%
Ég ákvað að segja upp tryggingum hjá mínu tryggingafélagi og fór með þær annað og fékk lægri iðgjöld þar. : 14%
Ég er ekkert búinn að gera í þessum málum, en ætla að gera það. : 45%
Ég hef ekkert gert með tryggingarnar, er ánægður með þau kjör og þjónustu sem mér býðst hjá núverandi tryggingafélagi. : 13%