Konurnar betri ökumenn
Norska tryggingafélagið Tryg hefur fengið gerða samanburðarrannsókn á akstursmáta kvenna og karla. Meginmunur kynjanna undir stýri er sá að konur eru stressaðri í akstri en karlar en lenda sjaldnar í árekstrum.
En stressið á konunum er alls ekki af hinu vonda því það er m.a. þess vegna sem þær eru betur vakandi yfir sjálfum akstrinum og lenda því um helmingi sjaldnar í óhöppum og árekstrum að meðaltali en karlar og valda ríflega helmingi minna tjóni undir stýri en karlarnir. Forstjóri tryggingafélagsins segir við norska fjölmiðla að niðurstöður rannsóknarinnar komi sér svo sem ekki á óvart og hann vænti þess að þjóðsagan um ómögulega kvenbílstóra sé með þessum niðurstöðum loksins endanlega lögð í gröfina.
Aðspurður um hvort umferðarslys séu fleiri og verri þá daga sem föstudag ber upp á hinn 13 dag mánaðar segir tryggingaforstjórinn það alls ekki vera heldur þvert á móti. Slys og tjón séu færri og minni þá, líklega vegna þess að fólk gætir betur að sér af því það trúir því að föstudagur 13. sé hræðilegur dagur. En alla jafna séu föstudagarnir meiri slysadagar í umferðinni en aðrir vikudagar, nema hann beri upp á 13. Mánaðardag. Þá eru slysin um það bl 16 prósent undir meðaltali vikunnar.