Kortínan fimmtug
Í dag 20. september er hálf öld síðan Ford í Bretlandi frumsýndi nýjan fjölskyldubíl; Ford Cortina. Bíllinn varð metsölubíll á augabragði og seldist í skipsförmum hvarvetna í Evrópu - hér á Íslandi sem annarsstaðar.
Cortina var á flestan hátt dæmigerður Ford síns tíma. Það var fátt byltingarkennt við hann. Hann var byggður eins og flestallir aðrir bílar þessa tíma að Volkswagen undanskildum, með vélina fram í en drifið á afturhjólum. En þetta var rúmgóður bíll og þægilegur og á ágætu verði, einfaldur að byggingu og auðveldur í viðhaldi.
Árið 1962 voru 17 ár liðin frá stríðslokum. Lífskjör höfðu stórlega batnað í Evrópu og fólk keypti sér bíla í vaxandi mæli og bílaiðnaðurinn kom fram með fleiri og fleiri nýjungar. Austin Mini með vélina þversum framí, framhjóladrif og hjólin yst á hverju horni bílsins var búinn að vera á markaði í fáein ár og nokkrum vikum áður hafði Ford í Þýskalandi kynnt Taunus 12M Cardinal sem var með V4 vél og framhjóladrifinn. –Hvar var allt þetta, og hvar var frumleikinn og hinn einstaklega vandaði frágangur sem einkenndi Fólksvagninn þýska? Það var ekki laust við að bílablaðamenn sem höfðu búist við nýju og byltingarkenndu farartæki frá Ford í Bretlandi yrðu fyrir nokkrum vonbrigðum þegar þeir litu gripinn fyrst augum.
En hjá breska Ford vissu menn alveg hvað þeir voru að gera. Bíllinn var fyrst og fremst hugsaður fyrir Bretlandsmarkað en hann sló algerlega í gegn miklu víðar, t.d. á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Og ekki leið á löngu þar til Ford í Þýskalandi hóf að framleiða Cortina bíla, að vísu undir nafninu Taunus.
En upphaf Cortina er dálítið sérstakt: Yfirstjórn Ford hafði nefnilega ákveðið þarna í upphafi sjöunda áratugarins að nýr heimsbíll frá Ford fyrir markaðina utan Bandaríkjanna skyldi verða hinn framhjóladrifni Ford Cardinal og framleiða ætti hann eingöngu í Þýskalandi. Þetta þótti Sir Patrick Hennesey forstjóra Ford í Bretlandi vond latína. Hann setti því í gang upp á sitt eindæmi hóp til að hanna nýjan bíl til að leysa sómasamlega af hólmi Ford Anglia sem var að úreldast.
Útlitshönnuðirnir fengu mjög frjálsar hendur. Þeim var bara sagt að láta bílinn líta vel út og hafa hann eins einfaldan í byggingu og mögulegt var. Verkfræðingarnir og tæknimennirnir hins vegar fengu stífara taumhald. Dagskipan þeirra var sú að nýta þá tækni sem þegar var til staðar. Vélin skyldi vera gamla 1,2 l vélin og fjögurra gíra gírkassinn og annað gangverk úr Ford Anglia.
Þessi uppskrift heppnaðist ágætlega. Cortina þótti falleg á að líta, innréttingin verulega „amerísk“ (sem þótti flott) og undarlegt þótti mörgum hversu gluggapóstar voru grannir og héldu jafnvel að ef bíllinn ylti, myndu þeir klessast saman. En sérstæðust þóttu og þykja enn afturljósin sem minna á merki þeirra sem vilja ekkert með kjarnorku hafa.