Krafa hvílir á seljendum að veita neytendum allar nauðsynlegar upplýsingar

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur kvartað á opinberum vettvangi yfir innleiðingu E10-bensínblöndunnar. Í umfjöllun á fib.is í síðustu viku gagnrýndi Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, það að enginn aðdragandi var að þessum breytingum á vöruvali né upplýsingum frá söluaðilum til almennings.

Rík krafa hvílir á seljendum að veita neytendum allar nauðsynlegar upplýsingar áður en kaup eiga sér stað. Þessi skylda byggir bæði á lögum um neytendasamninga og reglum um villandi upplýsingar samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Yfirvöld neytendamála hafi brugðist í þessu breytingaferli

FÍB telur að yfirvöld neytendamála hafi brugðist í þessu breytingaferli. Það hefur ekkert verið gert til að verja neytendur og tryggja öryggi almennings vegna fyrirvaralausra breytinga á innihaldi 95 oktan bensíns . Til dæmis liggja ekki fyrir nein fyrirmæli sem tryggja neytendum valkost eins og t.d. aðgengi að 98 oktan bensíni.

Málið varðar m.a. Neytendastofu vegna innihaldslýsingar vöru og villandi viðskiptahætti og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna eftirlits með öryggi vöru og mögulega brunahættu. Hægt væri að kalla einnig á viðbrögð frá Vinnueftirlitinu og Umhverfisstofnun. Engin viðbrögð hafa komið frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu sem fer með neytendamál.

Notkun E10-bensínblöndu getur reynst varasöm á eldri ökutæki. Hún getur tært bensíntanka og leiðslur og jafnvel valdið íkveikjuhættu. 98 oktana bensín dugar best á þá bíla en það eldsneyti er einungis í boði á fáum stöðum á landinu

Neytendastofa skoðar upplýsingagjöf til neytenda

Í umfjöllun í Morgunblaðinu í dag rætt við við nokkra aðila sem málið varðar. Matthildur Sveinsdóttir,sviðsstjóri hjá Neytendastofu,segir stofnunina vera að skoða hvernig upplýsingagjöf til neytenda hafi verið í þessu máli og hvort tilefni sé til athugasemda um atriði sem bæta þurfi úr.

Gunnar Geir Gunnarsson,deildarstjóri öryggis-og fræðsludeildar hjá Samgöngustofu,segir eldsneyti vera vöru á markaði og Samgöngustofu ekki hafa neitt valdboð um framboð á því. Honum líst þó illa á það, út frá öryggissjónarmiði,að menn séu að skrölta með tunnur af 98 oktana bensíni í einkabílum landshluta á milli vegna skorts á framboði.

Inngrip þurfi frá ráðuneyti eða Alþingi

Gunnar Geir vill ekki spá of mikið í það hvort lítið eða ekkert framboð á réttu eldsneyti geti orðið tilþess að krafist verði að eldri ökutæki séu tekin af skrá.Til þess þurfi inngrip frá ráðuneyti eða Alþingi, væri farið í slíka eignaupptöku.Slíkt frumkvæði muni ekki koma frá Samgöngustofu.

Grétar Þór Þorsteinsson,sérfræðingur í brunavörnum hjá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun, segir stofnunina vera vakandi fyrir þeirri brunahættu sem notkun á E10-blöndunni geti valdið.

Grétar Þór tekur undir með Gunnari Geir, að það séu góðar ástæður að baki því hvernig eldsneytisflutningum á milli landshluta er nú háttað og það sé vond hugmynd að fólk taki upp á því sjálft vegna skorts á framboði. HMS hefur ekki frekar en aðrir valdboð yfir olíufélögum varðandi að tryggja framboð á 98 oktana bensíni,og þau þurfi að svara fyrir það sjálf út frá öryggissjónarmiði. Eigendur eldri bíla þurfi ekki að óttast að setja E10-blönduna á einu sinni eða tvisvar, svo lengi sem skipt sé fljótlega í 98 oktana bensín.

VÍS fylgist vel með gangi mála

Í sömu umfjöllun í Morgunblaðinu var Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri hjá VÍS, innt eftir hvaða áhrif röng eldsneytis notkun hefði á vátryggingar bíla og hvort skortur á eldsneyti gæti orðið til þess að tryggingarfélög neituðu að tryggja ákveðin ökutæki. Erla segir VÍS fylgjast mjög vel með þessu máli. Hún telur söluaukningu á 98 oktana bensíni sýna að neytendur virðist nokkuð vel upplýstir um málið. Erla telur afar ólíklegt að VÍS taki ekki lengur að sér tryggingar ákveðinna bifreiða, en leiði tölfræði í ljós sað einhver ökutæki leiði af sér meiri tjónakostnað þá geti það endurspeglast í verðlagi trygginga.