Krísa í gangi hjá Volkswagen

Verksmiðja Volkswagen í Wolfsburg.
Verksmiðja Volkswagen í Wolfsburg.

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hyggst loka að minnsta kosti þremur verksmiðjum í Þýskalandi. Þessi ráðstöfun hefði það í för með sér að tugþúsundum starfsmanna verður sagt upp störfum. Afkastageta verksmiðja sem eftir verða í stærsta hagkerfi Evrópu verður minnkuð til muna. Þetta er mun víðtækari endurskipulagning en búist var við.

Stjórnendur Volkswagen hafa kallað eftir hörðum aðgerðum frá stjórnvöldum vegna aukinnar samkeppni frá Kína, krefjandi aðstæðum á öðrum stórum mörkuðum auk þess að kostnaðarsamt sé að færa framleiðsluna úr bensín- og díselbílum yfir í rafbíla.

Volkswagen stærsti bílaframleiðandi Evrópu hefur verið í viðræðum við verkalýðsfélög í nokkrar vikur um áætlanir um að endurskipuleggja reksturinn og draga úr kostnaði, þar á meðal að loka verksmiðjum á heimavelli í fyrsta sinn, sem er áfall fyrir iðnaðarmátt Þýskalands. Volkswagen ítrekaði að endurskipulagning væri nauðsynleg og sagðist munu leggja fram nákvæmar tillögur síðar í vikunni.

,,Stjórnendur meina þetta í fullri alvöru. Þetta er ekki sýndarmennska í kjaraviðræðunum," sagði Daniela Cavallo, formaður samstarfsráðs Volkswagen, við starfsmenn í stærstu verksmiðju fyrirtækisins í Wolfsburg og hótaði að slíta viðræðum.

,,Þetta er áætlun stærsta iðnfyrirtækis Þýskalands um að hefja sölu eigna í heimalandinu," bætti Cavallo við, án þess að tilgreina hvaða verksmiðjur yrðu fyrir áhrifum eða hversu margir af um 300.000 starfsmönnum Volkswagen Group í Þýskalandi gætu misst vinnuna.

Starfsmenn safnast saman og mótmæla harðlega

Þúsundir starfsmanna fyrirtækisins söfnuðust saman í Wolfsburg, þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins hafa verið í næstum níu áratugi. Starfsmenn flautuðu og blésu í lúðra og kröfðust þess að ekki yrði lokað einni einustu verksmiðju.

Volkswagen sagði í yfirlýsingu að fyrirtækið myndi leggja fram tillögur um hvernig draga mætti úr launakostnaði á miðvikudag, þegar starfsmenn og stjórnendur hittast í annarri umferð kjaraviðræðna og bílaframleiðandinn birtir uppgjör þriðja ársfjórðungs.

,,Ástandið er alvarlegt og ábyrgð samningsaðila er gífurleg Án víðtækra aðgerða til að endurheimta samkeppnishæfni munum við ekki geta staðið undir nauðsynlegum fjárfestingum í framtíðinni," sagði Gunnar Kilian, stjórnarmaður hjá Volkswagen Group.

Thomas Schaefer, sem stýrir Volkswagen vörumerkjadeildinni, sagði að þýsku verksmiðjurnar væru ekki nógu afkastamiklar og væru að starfa 25-50% yfir áætluðum kostnaði, sem þýðir að sumar starfsstöðvar væru tvöfalt dýrari samanborið við samkeppnisaðila.

Hlutabréf í Volkswagen lækkuðu um meira en 1% eftir tilkynninguna. Hlutabréf í Mercedes Benz féllu einnig. VW hlutabréf hafa tapað 44% af verðmæti sínu á síðastliðnum fimm árum, samanborið við 12% lækkun hjá Renault og 22% hækkun hjá Stellantis.