Kröfur að berast rafbílaeigendum sem láðst hefur að skrá kílómetrastöðu

Undanfarið hafa margir rafbílaeigendur fengið kröfu frá Skattinum um greiðslu á 50 þúsund króna vanskráningargjaldi þar sem láðst hefur að skila inn til skattsins kílómetrastöðu ökutækja þeirra á árinu 2024. Lög um kílómetragjald á raf- og tengiltvinnbíla komu til framkvæmda fyrir ári síðan. Í lögunum er ákvæði um mögulega 50 þúsund króna sekt ef trassað er að skila inn kílómetrastöðu á almanaksári. Skatturinn kynnti rækilega fyrir ríflega ári síðan að rafbílaeigendur þyrftu að skila inn kílómetrastöðu ökutækja sinna. Að matil FÍB hefði það fallið undir vandaða stjórnsýslu að kynna með auglýsingum og eða með tilkynningu til rafbílaeigenda gegnum island.is áminningu um að skila þurfi inn stöðu akstursmælis á almanaksárinu.

FÍB hefur sent ábendingu til Skattsins um þessa vondu stjórnsýslu.

Vinnur gegn aðlögun almennings að orkuskiptum

Þessi stjórnsýsla gengur þvert á markmið stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum. Margir bíleigendur koma af fjöllum vegna þessarar kröfu. Sumir keyptu bíl á eftir markaði eða nýjan á árinu 2024 og voru í þeirri góðu trú að fyrri eigandi, bílaumboð eða bílasala hefði fært inn kílómetrastöðu nýja ökutækisins.

Nokkrir bíleigendur hafa haft samband við FÍB og segjast hafa gefist upp á þessari ,,rafbíla vitleysu”. Það fer illa í fólk að fá 50 þúsund króna refsingu á aðlögunartíma stórfelldra kerfisbreytinga. Þarna væri kærkomið að sjá viðbrögð frá nýrri ríkisstjórn.

Rukkað fyrir 130 kílómetra á dag umfram það sem ekið var

Það virðist sem kerfin hjá Skattinum séu ekki að virka í mörgum tilvikum. FÍB er með tilvik þar sem bíleigandi tilkynnti inn kílómetrastöðu í upphafi árs 2024 og hafði bílnum þá verið ekið tæplega 15 þúsund km. Í júní fór ökutækið í innköllunarviðgerð hjá umboði og þá sendi umboðsverkstæðið inn ranga kílómetrastöðu eða 25 km. Þessi færsla var leiðrétt sama dag frá verkstæðinu og þá var kílómetrastaðan ríflega 20 þúsund km. Bíleigandinn sendi aftur inn upplýsingar um kílómetrastöðu í byrjun desember en þá hafði bílnum verið ekið tæplega 27 þúsund km. Kerfið hjá Skattinum reiknaði akstursnotkun bíleigandans yfir árið 2024 miðað við 25 km sumar skráninguna og 27 þúsund km desember skráninguna og fékk út að bílnum hefði verið ekið að meðaltali 166 km á dag þegar raunakstur var 36 km að meðaltali á dag. Bíleigandinn gat ekki leiðrétt þessi augljósu mistök með samtali í síma við starfsmann Skattsins heldur þurfti að senda tölvupóst á Skattinn með beiðni um leiðréttingu. Skatturinn hefur ekki svarað tölvupóstinum.

Nútíma tölvukerfi á að bregðast við svona augljósri innsláttar villu. Það er öllum ljóst að 25 kílómetra færslan um sumarið stóðst ekki skoðun.

Margar ábendingar hafa borist FÍB

Margar ábendingar hafa borist FÍB um að sumar skoðunarstofur neiti að skrá niður kílómetrastöðu ökutækja og senda til Skattsins eða Samgöngustofu. Hafa yfirvöld ekki gengið frá neinu samkomulagi við skoðunarstöðvar?

Til upplýsinga þegar kílómetragjaldið var lagt á kom fram að rafbílaeigendur þurfa að halda sjálfir utan um kílómetrastöðu bifreiða sinna og skrá hana inn á island.is minnst einu sinni á ári. Kílómetragjald er greitt mánaðarlega.

Nýtt kílómetragjald fyrir akstur rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbíla var tekið upp í byrjun árs 2024. Gjaldið er sex krónur á kílómetra fyrir rafmagns- og vetnisbíla en tvær krónur á kílómetra fyrir tengiltvinnbíla.

En hvað þurfa rafbílaeigendur að gera og hvers vegna þurfa rafbílaeigendur að greiða þetta gjald á nýju ári? Stjórnvöld komu á legg vefsíðu um kílómetragjaldið, sem ber heitið Vegir okkar allra. Þar er reynt að svara þessum spurningum um gjaldið.

Rafbíla-, tengiltvinn-, og vetnisbílaeigendur þurfa að halda utan um kílómetrastöðu bifreiða sinna og skrá þær inn á island.is, minnst einu sinni á ári.

Svo dæmi sé tekið miðað við 14 þúsund kílómetra akstur á ári (meðalakstur einkabifreiða á landsvísu) geta rafbílaeigendur átt von á því að greiða sjö þúsund krónur á mánuði í kílómetragjald sem gera 84 þúsund krónur á ári.