Krónprins Dana fær sér rafbíl
Friðrik krónprins Dana verður einn af fimm þeim fyrstu í heiminum sem fá lúxusrafbíl af Fisker Karma gerð afhentan. Fisker Karma er sköpunarverk danska bílahönnuðarins Henriks Fisker sem áður hannaði bíla m.a. hjá BMW og Aston Martin. Friðrik prins fær bílinn afhentan í næsta mánuði. Hinir fjórir sem fá fyrstu bílana sem renna af færiböndunum hjá Valmet í Finnlandi, eru Leonardo Di Caprio, Colin Powell og Al Gore ásamt stjórnarformanni Fisker Automobile, sem heitir Ray Lane.
Fisker Karma er mikill lúxusvagn, knúinn áfram af tveimur rafmótorum sem samtals eru 403 hestöfl. Geymarnir fullhlaðnir geyma straum til 80 km aksturs sem dugar vel í bæjarsnattinu. En þegar geymarnir eru við það að tæmast fer 260 hestafla bensínrafstöð í gang sem framleiðir nægan straum til áframhaldandi aksturs.
Fisker Karma er 2,5 tonn að þyngd og fimm metra langur. Hann er 5,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og kemst á 200 km hraða.