KTM X-Bow

http://www.fib.is/myndir/KTM_X_Bow_1.jpg
KTM X-Bow.

Austurríska mótorhjólaframleiðslufyrirtækið KTM er byrjað að framleiða sportbílinn X-Bow. Bíllinn var sýndur sem frumgerð eða hugmyndarbíll á bílasýningunum í Genf 2007 og vakti þá mikla athygli. Bíllinn er samvinnuverkefni KTM og kappakstursfyrirtækis sem heitir Dallara og eru einungis tvö og hálft ár síðan hugmyndin að bílnum kviknaði þar til nú að framleiðsla og sala er hafin. Þann 6. ágúst sl.  fékk fyrsti kaupandinn bíl sinn afhentan í borginni Graz – fyrsta al-austurríska bílinn í 50 ár.

Fyrsti KTM X-Bow bíllinn er sá fyrsti af 150 bíla seríu sem kallast „Dallara Edition." Vart er hægt að tala um fjöldaframleiðslu enda höfðar X-Bow fyrst og fremst til fremur þröngs hóps áhugamanna um sérstæða ofursportbíla. Í fyrstu framleiðsluvikunni voru byggðir þrír bílar, þrír í þeirri næstu og nú þegar allt er komið á fullt eru byggðir tveir bílar á dag.http://www.fib.is/myndir/KTM-x-bow.jpg

Kannski er réttast að tala um KTM X-Bow sem fjórhjól fremur en bíl. Hann er opinn – engar dyr eru á honum og engin  hefðbundin framrúða. Hann er tveggja sæta en sætin eru þó hlið við hlið eins og í hefðbundnum sportbíl. Burðarvirkið er úr koltrefjum þannig að farartækið er mjög létt, einungis 790 kíló tilbúinn til aksturs. Vélin er 2,0 l 240 ha. túrbínuvél frá Audi og við hana er sex gíra gírkassi eða DSG frá VW og drifið er á afturhjólum. X-Bow er 3,9 sekúndur í hundraðið og kemst á 220 km hraða. En vegna þess hve léttur bíllinn er og loftmótstaðan lítil er bensíneyðslan hófleg í það minnsta fyrir jafn mikið tryllitæki og þetta, eða 7,8 lítrar á hundraðið  í blönduðum akstri.

X-Bow er settur saman hjá Magna Steyr í austurrísku borginni Graz. Byggðir verða alls 500 bilar fyrsta framleiðsluárið. Að því liðnu er ætlunin að auka framleiðsluna stig af stigi. Eftirspurn virðist næg því að þegar eru þúsund manns á biðlista eftir nýjum X-Bow. Algengt útsöluverð í Evrópu er um 40 þúsund evrur. Um 50 söluumboð hafa verið opnuð og markmiðið er að viðskiptavinir fái alla varahluti innan 48 tíma frá pöntun.

Hreinræktaður austurrískur bíll hefur ekki verið byggður í landinu í meir en hálfa öld fyrr en nú. Magna Steyr verksmiðjan í Graz hefur vissulega byggt bíla lengi en það eru allt bílar erlendra framleiðenda eins og Mercedes Benz, BMW, Saab og Chrysler.