Kulnandi samband
Með gerbreyttri stefnu General Motors í Evrópu sem felst í því að efla verulega Opel/Vauxhall og draga hina kóresku Chevroletbíla út af Evrópumarkaði fylgja ýmsar aðrar breyttar áherslur og fyrirætlanir. Meðal þess sem breytist er að tæknisamstarfi GM við franska bílaframleiðandann PSA – Peugeot/Citroen, sem hófst í febrúar 2012, verður hætt að stórum hluta. Það er heldur ekki lengur inni í myndinni að GM eignist PSA, heldur þvert á móti. Sá sjö prósenta hlutur sem GM keypti í Peugeot 2012 verður seldur.
Í samstarfsáætlununum frá 2012 fólst m.a. að þróa skyldi nýjar gerðir smábíla, þar á meðal nýja kynslóð Opel Corsa sem byggja átti á grunni Citroen C3 og Peugeot 208. Hagkvæmnin skyldi ekki síst felast í sameiginlegri tækni þessara bílagerða og þar með sameiginlegum innkaupum á íhlutum í þá og jafnvel byggja alla þrjá bílana í einni og sömu verksmiðjunni. Bílana átti að byggja alla ofan á eina og sömu grunnplötuna, hina svonefndu EMP1 grunnplötu frá Peugeot. Af þessu verður ekki og það verður heldur ekkert af því að GM og PSA þrói í sameiningu nýjar þriggja strokka vélar fyrir allar tegundirnar þrjár.
Ekki eru GM og PSA þó algerlega skildir að skiptum því að áfram ætla menn að halda með samvinnu um jeppling sem koma skal á markað á næsta ári undir merkjum Opel, Peugeot og Citroen. Bíllinn verður byggður í bílaverksmiðju PSA í Sochaux í Frakklandi og hjá Citroen mun hann nefnast C4 Cactus. Þá verður haldið áfram samvinnu um framleiðslu fjölnotabíla eða MPV bíla eins og þeir kallast. Ennfremur mun nýjasta kynslóð Citroën C3 Picasso verða byggð í verksmiðju Opel á Spáni þar verður nýjasta kynslóð Opel Meriva líka byggð.