Kvartmilljarður króna af hraðasektum ferðamanna afskrifaðar á ári
Á stjórnarfundi Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) í byrjun september sl. var fjallað um ný umferðarlög sem eiga að taka gildi 1. janúar 2020. Stjórnin fagnaði samþykkt frumvarpsins eftir margra ára meðgöngu. Umræðan var að mestu jákvæð en fram komu vonbrigði með niðurfellingu aukinnar hlutlægrar ábyrgðar sem var í frumvarpinu en fellt brott í meðförum Alþingis. Ákvæðið í frumvarpinu heimilaði álagningu sekta á skráðan eiganda eða umráðaaðila ökutækis vegna brota gegn ákvæðum laga um hraðakstur eða við akstur á móti rauðu ljósi, án þess að sýnt væri fram á ásetning eða gáleysi. Skilyrt var að brotið væri ekki til punkta, enda hefði atvikið verið myndað í löggæslumyndavél og ökutækið ekki notað í heimildarleysi. Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins voru með öflugan þrýsting á umhverfis- og samgöngunefnd um að taka út hlutlæga ábyrgð á eigendur bifreiða vegna hraðasekta. Samtökin sögðu m.a. að erfitt væri að innheimta sektir af þeim sem leigja bifreiðar og því myndi þurfa að velta sektunum út í verðlagið. Í frétt Viðskiptablaðsins um málið var sagt að Alþingi hefði bænheyrt bílaleigur með því að fella á brott hlutlæga ábyrgð vegna myndaðra ökubrota. Breið pólitísk sátt var um þessa breytingu á Alþingi.
Stjórnvöld brjóta á jafnræði ökumanna
Að mati stjórnar FÍB er niðurfelling sekta vegna hraðabrota í hraðamyndavélum brot á jafnræði íslenskra ökumanna gagnvart erlendum ökumönnum á bílaleigubílum. FÍB óskaði eftir upplýsingum frá ríkislögreglustjóra (RLS) um hraðamyndavélabrot. Beðið var m.a. um eftirfarandi gögn:
- Fjöldi skráðra hraðabrota í hraðamyndavélum sem felld hafa verið niður sl. 10 ár.
- Hlutfall erlendra ökumanna í niðurfelldum hraðabrotum.
- Fjöldi hraðamyndavélabrota vegna ökumanna á bílaleigubílum.
- Erindinu var svarað greiðlega af Guðbjörgu S. Bergsdóttur verkefnastjóra rannsókna og þróunar hjá RLS. Hér á eftir má sjá gögnin með skýringum frá RLS.
Um 11.000 hraðabrot 2018 vegna bílaleigubíla
Skráð hraðabrot í hraðamyndavélum voru 45.579 í fyrra (2018) og þar af voru 32.923 skráð á einstaklinga með íslenska kennitölu en 12.655 á fyrirtæki. Tölurnar fyrir 2018 voru svipaðar og árin 2017 og 2016. Brotum fjölgaði um 36% frá 2015 til 2016. Athyglisvert er að sjá að fjöldi hraðasekta var svipaður í upphafi viðmiðunartímabilsins og 2015 en dróst verulega saman árin 2011, 2012 og 2013.
Frá 2016 hefur verið áberandi fjölgun brota vegna ökutækja sem skráð eru á fyrirtæki. Samkvæmt gögnum RLS er að meðaltali 81% fyrirtækjabrota vegna bílaleigubíla. Árið 2018 var 87% fyrirtækjabrota vegna bílaleigubíla eða um 11.000 hraðabrot.
Sektir felldar niður í 95% mála vegna bíla í eigu fyrirtækja
Tölurnar varðandi niðurfelldar sektir vegna hraðabrota í hraðamyndavélum eru sláandi. Stjórnvöld hafa látið líðast í 95% tilvika (meðaltal tíu ára) að fella sektir niður vegna hraðabrota sem skráð eru á bíla í eigu fyrirtækja. Að meðaltali yfir áratug hefur um 6% hraðabrota einstaklinga lokið án greiðslu sektar en þessi tala var komin niður í 1% í fyrra. Tölurnar fyrir 2017 og 2018 virðast benda til þess að aðeins betur hafi gengið að innheimta fyrirtækjabrot þau ár samanborið við árin á undan. Fleiri mál eru ennþá í sektarmeðferð.
Samkvæmt upplýsingum frá hraðamyndavéla- og sektardeild lögreglunnar í Stykkishólmi var farið í innheimtuátak vegna erlendra ökumanna sem voru með hraðasektir. Kröfubréf hafa verið send á þá ökumenn sem voru með sektarkröfu yfir 50.000 krónum og náðst hefur að innheimta yfir 45% af þeim kröfum. Lögreglan á Vesturlandi telur að stórbæta megi innheimtuhlutfallið og tekjurnar ef embættið fengi heimild frá stjórnvöldum fyrir t.d. einu stöðugildi í viðbót til sektardeildarinnar.
Eðlilegast að innheimta hraðasektir strax
Líkt og fram kemur eiga bílaleigur að meðaltali um 81% brota sem skráð eru á fyrirtæki en þessi tala var komin í 87% árið 2018. Tölurnar um niðurfelldar kröfur sýna mikla mismunun á milli ökumanna með skráð lögheimili á Íslandi samanborið við erlenda ríkisborgara á bílaleigubílum. Lögreglan hefur Lengi kvartað yfir stöðu þessara mála og farið fram á frekari mannafla og lagabreytingar til að ná betri heimtum.
Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið, ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa og Vegagerðin eru í samstarfi um uppsetningu og rekstur hraðamyndavéla. Myndatakan er stafræn og eru upplýsingar um hraðabrot sendar samstundis til lögreglunnar. Rafrænu sektarboðin fara fljótlega, oftast daginn eftir, til skráðs umráðaaðila ökutækis. Sektargerðir vegna hraðabrota eiga hafa forvarnargildi en það fer fyrir lítið gagnvart stærstum hluta erlendra ökumanna á bílaleigubílum.
Eðlilegt væri að hafa hlutlæga ábyrgð á þessum sektum til að draga úr afskriftum og tryggja forvarnir og jafnræði ökumanna. Það er ekkert tæknilegt í veginum að senda sektarboð vegna hraðabrota strax til skráðs umráðaaðila ökutækis. Hjá bílaleigum er hægt að tengja kröfuna beint inn á leigusamning þess sem er með ökutækið á leigu. Við uppgjör samnings er leigutaki rukkaður um hraðamyndavélabrotið. Bílaleigur taka umsýslugjald af viðskiptavinum vegna innheimtu sekta þannig að leigurnar ættu ekki að hafa af þessu kostnað. Það þyrfti að búa til kæruleið og innheimtuferli vegna hraðasekta sem ekki skila sér. Þær kröfur færu í sambærilegan farveg og innheimtur vegna ógreiddra sekta og veggjalda á milli landa í Evrópu.
250 milljónir króna af hraðasektum ferðamanna afskrifaðar á ári
Í frétt á Vísis 9. nóvember 2017 kom fram að fjórðungi hraðamyndavélabrota væri lokið án greiðslu. Í gögnum fyrir 2018 má sjá að 25% hraðabrota hafa verið afgreidd án sektar, flest vegna bílaleigubíla. Í fréttinni fyrir tveimur árum var haft eftir Ólafi Guðmundssyni yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Vesturlandi að varlega áætlað skulduðu ferðamenn 160 milljónir króna í sektir. Þann 1. maí 2018 hækkuðu sektir vegna umferðarlagabrota umtalsvert. Minnsta hækkun hraðasekta var 50%. Lægsta sekt fyrir þann sem ók á vegi með hámarkshraða 90 km/klst var 10.000 krónur en fór í 15.000 krónur. Næsta sekt þar fyrir ofan var 30.000 krónur en fór í 50.000 krónur. Miðað við áætlun lögreglunnar 2017 má gera ráð fyrir að afskriftir vegna ógreiddra hraðakstursskulda ferðamanna í ár verði a.m.k. 250 milljónir króna. Þrátt fyrir að ríkissjóður tapi kvartmilljörðum króna í sektargjöld vafðist það ekki fyrir Alþingi að fella út hlutlæga ábyrgð á ,,minni“ hraðabrotum í nýju umferðarlögunum.