Kvikmyndabílarnir
Viljirðu vita á hverskonar bíl hetja myndar kvöldsins í sjóvarpinu ekur þá geturðu efalaust fundið það út í veglegum gagnagrunni sem settur hefur verið upp á Netinu. Í þessum grunni er hægt að sækja margvíslegan fróðleik um bíla í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, eins og af hvaða tegund og gerð þeir eru. Í grunninum eru nú hátt í 25 þúsund bíó- og sjónvarpsmyndir skráðar og í þeim koma fyrir um 410 þúsund bílar.
Algengasti bíómyndabíllinn er Ford Crown Victoria sem nýlega er hætt að framleiða. Viktorían hefur um áratugaskeið verið mjög algeng í Bandaríkjunum sem bæði lögreglubíll og leigubíll og það er ástæða þess hve oft bílnum bregður fyrir í kvikmyndum. Næst algengastir eru Ford Mustang bílar og þar á eftir koma Chevrolet Impala, Ford Econoline og VW Golf.
Eðli máls samkvæmt koma flestir bílar fram í bílaþáttum sjónvarps. Að þessu leyti eru bresku sjónvarpsþættirnir TopGear og Fifth Gear í fyrsta og öðru sæti. Í því þriðja kemur svo þýska sjónvarpsmyndaröðin Alarm für Cobra 11 – Die Autobahnpolizei, sem nú hefur gengið í þýsku sjónvarpi samfleytt frá 1996. Flestir bílar sem sjást í einni og sömu bíómyndinni eru 63 og koma fram í myndinni Cars. Næst hennir er myndin Gone in 60 seconds frá árinu 1974 sem sýnir 62 bíla. Í þriðja sæti er svo kvikmyndin Junkman með 59 bíla.
„Kvikmyndabílarnir“ koma flestir frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Japan. Athyglisvert er að þótt sænskir bílar séu ekki stórt hlutfall af bílaflota veraldarinnar þá eru sænsku bílarnir í áttunda sæti yfir bíla sem flokkaðir eru eftir uprunalandi.