Lada Vesta Cross

Lada var eitt sinn mjög vinsæl bíltegund á Íslandi og í nágrannalöndum okkar, ekki síst Bretlandi. En svo var eins og fjaraði unda Lödunni. Bílarnir breyttust nánast ekki neitt árum saman og engar nýjar gerðir komu fram og neytendur utan Rússlands sneru sér að öðrum tegundum. En nú kann að verða breyting senn því að Renault-Nissan á nú orðið ráðandi hlut í verksmiðjunum og hefur ráðið vestrænan forstjóra og við hlið hans bílahönnuðinn Steve Mattin sem hannað hefur bíla hjá bæði Volvo og Mercedes. Bílafjölmiðlum hafa nú borist myndir af nýjum jepplingi sem væntanlegur er innan tíðar sem nefnist Lada Vesta Cross.

http://fib.is/myndir/Lada_vesta_cross2.jpg
http://fib.is/myndir/Lada_Vesta_Cross4.jpg
http://fib.is/myndir/Lada_vesta_cross3.jpg

Lada Vesta Cross verður svona torfærumiðuð útgáfa nýs fólksbíls; Lada Vesta, sem er á lokastigi þróunar og vænta má að fari í fjöldaframleiðslu þegar í næsta mánuði. Fjöldaframleiðsla á Vesta Cross á svo að hefjast á fyrri hluta komandi árs. En frumgerðir allra þessara bíla verða væntanlega til sýnis á bílasýningunni í Frankfurt eftir mánaðamótin næstu.

Lada Vesta Cross er byggður á svokallaðan Lada B undirvagn. Undirvagn þessi er byggður eftir verkfræðilegum formúlum frá Nissan sem kallaðar eru B-arkítektúr. Þessi B-arkitektúr er grunnnurinn að undirvögnum bíla eins og hins nýja Datsun, Dacia Logan, Nissan Juke og Nissan Micra.

Mjög takmarkaðar upplýsingar hafa verið gefnar um innviði Lada Vesta bílanna aðrar en þær að fólksbílarnir verði í fyrstu með nýjum bensínvélum sem verða frá 87-114 hö að afli.

Langt er síðan innflutningur á Ladabílum til Íslands lagðist af. Svipað gerðist í öðrum ríkjum N. Evrópu eins og t.d. Svíþjóð. En nú hefur verið stofnað nýtt innflutningsfyrirtæki í Svíþjóð sem hyggst selja Svíum og öðrum Norðurlandabúum Lödur.