Lækkaða eldsneytisskatta
Rúmlega þúsund manns hafa nú svarað spurningu okkar hér á heimasíðunni um eldsneytisverðið eins og það er nú. Spurningin var þessi: Bílaeldsneyti hefur aldrei verið jafn dýrt á Íslandi og nú og skattar á það aldrei hærri. Hvernig ætti ríkisvaldið að bregðast við?
Gefnir voru fjórir svarmöguleikar:
- Gera ekkert.
- Hækka eldsneytisskatta.
- Lækka eldsneytisskatta.
- Veit ekki.
Yfirgnæfandi meirihluti svarenda, eða 83,9 prósent vildu að ríkisvaldið lækkaði skattana á eldsneytið. 10,2 prósetn vildu að ríkisvaldið gerði ekkert í málinu. 4,6 prósent vildu hið þveröfuga og að eldsneytisskattar yrðu hækkaðir enn frekar. 1,3 prósent svarenda höfðu enga skoðun á málinu.
Eldsneytisverðið er nú verulega íþyngjandi fyrir marga, bæði einstaklinga, heimili og atvinnulíf. Þetta má greinilega sjá á umferð á vegum og götum landsins og þótt umferð um páskana hafi verið meiri en um páska í fyrra, þá var hún mun minni en á árum áður, þegar páskarnir voru ein hinna stærri ferðahelga ársins.