Lagði bílastæðafyrirtækið Onepark í Noregi vegna vangreiðslugjalds
Norskur bíleigandi, Christopher Kahrs, tók slaginn gegn Onepark einu öflugasta bílastæðafyrirtæki Noregs og hafði betur. ,,þeir eru að leika vafasama leiki“, sagði Christopher í viðtali við Motor blað NAF systurfélags FÍB í Noregi. Neytendaráð Noregs undirbýr hópmálsókn út af sambærilegum málum.
- Norskur bíleigandi lagði í bílastæðahúsi í Álasundi og var stefnt
Sunnudaginn 5. maí sl. lagði Christopher Kahrs bíl sínum tímabundið í bílastæðahús í Álasundi. Þegar hann ók úr stæðinu var greiðslukortið útrunnið sem hann hafði fært inn með persónuupplýsingum í bílastæða app Onepark.
,,Ég gæti að því eins og flestir að nota viðeigandi app þegar ég legg í bílastæði. Renni skráð greiðslukort út eða glatast er greiðsluviljinn eftir sem áður til staðar og allar upplýsingar um greiðanda fyrirliggjandi“, sagði Christopher við Motor.
Í stað þess að tilkynna um útrunnið greiðslukort sendi One Park Christopher reikning með umtalsverðum viðbótar gjöldum.
Bílastæðagjaldið var 63 NOK, norskar krónur, eða um 777 íslenskar krónur. Þegar reikningurinn barst Christopher var hann rukkaður um 124,50 norskar krónur. Á reikningnum var auk bílastæðagjaldsins krafðist 12,50 norskra króna í seðil- eða greiðslugjald, sem er innan laga heimilda, en einnig 49 norskar krónur í svokallað „Pay Later“ gjald, eða vangreiðslugjald. Þetta gjald var sagt álagt til að mæta kostnaði fyrirtækisins við upplýsingaöflun og innheimtu.
Christopher sætti sig ekki við ,,Pay Later“ vangreiðslugjaldið og hafnaði því að greiða kröfuna.
Tortryggilegar aðferðir
One Park seldi kröfuna til innheimtufyrirtækisins Riverty Norway AS, sem setti kröfuna í innheimtu. Christopher hafnaði aftur greiðslu og þá fór málið fyrir forliksrådet eða sáttaráðið, sem er neðsta þrep norska réttarkerfisins í einkamálum með takmarkað dómsvald. Þegar Christopher og Riverty mættu í fyrirtöku hjá sáttaráðinu í Nordre Follo um haustið hafði krafan vaxið úr upphaflegum 63 norskum krónum í 3.368 norskar krónur (41.450 íslenskar krónur) auk dráttarvaxta.
,,Ég held að flestum þyki mjög óþægilegt að fara til sáttaráðsins hvað þá vegna aðeins 49 NOK. En ég tel að bílastæðafyrirtækin séu á kolgráu svæði í sínum innheimtuaðgerðum. Fyrirtækin virðast treysta á það að langflestir viðskiptavinir borgi kröfurnar þrátt fyrir vitneskju um ólögmæti krafnanna“, sagði Christopher Kahrs við Motor.
Vann málið
Í sáttaráðinu hélt Riverty því fram að ökumenn bæru ábyrgð á gildistíma greiðslukorta sem tengdust greiðslulausnum bílastæðafyrirtækja.
Niðurstaða Nordre Follo sáttaráðsins í málinu var sú að ,,Pay Later“ vangreiðslugjaldið væri aukagjald sem ekki stæðist skoðun í þessu máli og væri því ólögmætt.
Christopher Kahrs var aðeins gert að greiða upphaflegu kröfuna 63 norskar krónur fyrir bílastæðið plús 12,50 norskar krónur í seðilgjald.
Flestir borga
Norska Neytendaráðið (Forbrukerrådet) sem er sambærileg stofnun og Neytendastofa hér á landi hefur haft milligöngu í málum 10 bíleigenda út af kröfum um greiðslu aukagjalda af bílastæðakröfum umfram seðil- og greiðslugjald. Í öllum þeim málum hefur verið úrskurðað neytendunum í vil.
Talsmaður norska Neytendaráðsins segir fæsta bíleigendur nenna að taka slaginn þegar um lágar upphæðir er að ræða. Ráðið telur að nokkur fyrirtæki líkt og Riverty hafi krafist óeðlilegra og ólögmætra reikningsgjalda.
Hópmálsókn
Norska Neytendaráðið hefur ákveðið að fara í hópmálsókn gegn Riverty. Riverty er fyrirtæki sem kaupir kröfur meðal annars frá bílastæðafyrirtækjum í Noregi. Fyrirtækið innheimtir bílastæðagjöld og reikningsgjöld af neytendum og er í viðskiptasambandi við mörg af stærstu bílastæðafyrirtækjum Noregs. Riverty hefur keypt kröfur og krafið viðskiptavini um reikningsgjöld langt umfram kostnað fyrirtækisins við innheimtuna. Neytendaráðið telur að þessi viðbótargjöld séu andstæð lögum um fjármálasamninga.
Hópmálsókn felur meðal annars í sér að Neytendaráðið fer með málið og kemur fram fyrir hönd allra neytenda sem hafa fengið reikning frá Riverty frá því í janúar 2023. Neytendur þurfa ekki að grípa til sértækra aðgerða þar sem Neytendaráðið fer með málið og stendur straum af öllum málskostnaði. Ef Neytendaráðið vinnur málið fá viðskiptavinir Riverty sjálfkrafa til baka það sem þeir hafa of greitt.
Sakfelling mun hafa fordæmisgildi gagnvart öðrum fyrirtækjum sem hafa innheimt sambærileg gjöld af viðskiptavinum sínum.
Hver er staðan hér á landi?
Sambærileg mál hafa verið til skoðunar hér á landi. Bæði FÍB og Neytendasamtökin hafa verið að beita sér í þessum bílastæðafrumskógi. Kæra kom til Neytendastofu frá FÍB á liðnu vori. Þar á bæ er málið í vinnslu og vonast eftir frumniðurstöðu snemma á komandi ári.
Ljóst er að norsku málin gætu verið vísbending um réttindi neytenda hér á landi.