Láglaunamaðurinn Elon Musk
Eignir Elon Musk forstjóra og eiganda rafbílaframleiðandans Tesla Motors eru metnar á 12 milljarða dollar og hann er númer 100 á lista Forbes yfir ríkustu manneskjur heims á þessu ári. Mánaðarleg forstjóralaun hans hjá Tesla eru hins vegar afar lág miðað við bandaríska bílaforstjóra eða 37.440 dollarar. Það er rétt yfir lögbundnum lágmarkslaunum í Kaliforníu.
Reyndar eru launin oftast einungis lítill hluti heildartekna bandarískra stórforstjóra þótt þau séu svo sem ekki neitt afleit. Þannig eru árslaun Mary Barra, forstjóra General Motors 1,6 milljón dollarar og árslaun Mark Fields forstjóra Ford eru 1,7 milljón dollarar. En heildar-árstekjur þeirra eru miklu hærri og koma frá risavöxnum bónusum og hlutabréfaeign.
En út frá laununum einum gæti Elon Musk sýnst vera hálfgerður volæðismaður í samanburði við kollega sina hjá GM og Ford, þrátt fyrir það að hafa fengið launahækkun um sl. áramót um tæpa tvö þúsund dollara á ári.
En þóttTesla Motors gangi vel núna þá er ekki langt síðan fyrirtækið var við það að fara á hausinn en komst með naumindum fyrir vind. Elon Musk hefur síðan þá viljað sýna gott fordæmi, m.a. Með því að þiggja lág laun – og reyndar gott betur en það, því að árið 2013 þá tók hann einungis einn dollar af árslaunum sínum en lét afganginn, 35.359 dollara renna til baka til Tesla.
En þrátt fyrir það að hafa verið nánast launalaus árið 2013 var hann svo sem ekki, né er á flæðiskeri staddur fjárhagslega. Musk fann upp og stofnaði á sínum tíma PayPal greiðslukerfið og seldi það svo Ebay og græddi ógrynni fjár á viðskiptunum.