Lágmarksöryggiskröfur EES ábótavant í þremur jarðgöngum
Þrjú jarðgöng af þeim fjórum á Íslandi sem tilheyra samevrópska vegneti upfylla ekki lágmarkskröfur EES fyrir jarðgöng samkvæmt eftirlitsstofnun EFTA og ESA. Þetta kemur fram í rökstuddu áliti sem ESA hefur komið áleiðis til íslenskra stjórnvalda þar sem þau hafa ekki innleitt lágmarksöryggisráðstafanir í jarðgöngum af því fram kemur í umfjöllun um málið á visir.is.
Fáskrúðsfjarðargöng, göngin um Almannaskarð og Vaðlaheiðargöng eru þau umrædd jarðgöng sem ekki uppfylla þessar kröfur. Tekið er fram að of langt bil á milli neyðarstöðva í göngunum. Í Vaðlaheiðargöngum er bilið 250 metrar en má mest vera 150 metrar, í Almannaskarðsgöngnum er bilið 340 metrar en má mest vera 250 metrar.
Segir á vef ESA að íslensk stjórnvöld hafa gefið til kynna að þetta verði lagfært fyrir árslok 2021. ESA hafi hins vegar enn ekki fengið staðfestingu frá íslenskum stjórnvöldum þess efnis.
Þá telur ESA að skortur á rýmingarlýsingu í Fáskrúðsfjarðargöngum og Almannaskarðsgöngum sé brot á EES-reglum um umferðaröryggi í jarðgöngum. Íslensk stjórnvald hafi gefið til kynna að þessu verði komið í rétt horf árið 2024.
Íslensk stjórnvöld fá nú þrjá mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og eftir það getur ESA ákveðið að vísa málinu til EFTA-dómstólsins.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB hefur ætíð barist ötullega fyrir auknu öryggi í jarðgöngum á liðnum árum. FÍB hafði forgöngu um viðamikla úttekt á öryggi Hvalfjarðarganga 2010 í samvinnu við EUROTAP sem er samstarfsvettvangur bifreiðafélaga í Evrópu um öryggi jarðganga.
Hvalfjarðargöngin fengu afar slaka einkunn en í kjölfarið hefur öryggi þeirra batnað verulega. Einnig stóð FÍB fyrir grunnöryggisúttekt á umferðarmeiri jarðgöngum á Íslandi árið 2012 í samvinnu við Neyðarlínuna og slökkviliðsstjóra víða um land. Úttektin leiddi í ljós að ýmsu var verulega ábótavant og var farið yfir það með Vegagerðinni og viðeigandi aðilum.
FÍB hefur alltaf hvatt til víðtæks samráðs um öryggismál jarðganga. Æskilegt væri að kalla að borði auk fulltrúa Vegagerðarinnar og Samgöngustofu, fulltrúa frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna brunavarna, fulltrúa frá Ríkislögreglustjóra almannavarnadeild og fulltrúa FÍB fyrir hönd vegfarenda og bifreiðaeigenda.