Lagt til að neyðarbirgðir eldsneytis samsvari 90 daga notkun
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur kynnt í samráðsgátt áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Samkvæmt frumvarpinu er áformað að leggja skyldu á söluaðila eldsneytis að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga. Áform um lagasetninguna eru opin til samráðs til 9. febrúar næstkomandi.
Samkvæmt frumvarpinu er söluaðilum jarðefnaeldsneytis gert að tryggja aðgengi hér á landi að birgðum til 60 daga en geta uppfyllt allt að 30 daga með tryggingu í birgðum erlendis.
Samkvæmt frumvarpi ráðherra verður þessi birgðaskylda innleidd í nokkrum skrefum yfir nokkurra ára tímabil og myndi Orkustofnun fara með eftirlit með framkvæmd laganna.
Í samráðsgátt er bent á að í íslenskri löggjöf er ekki tilgreindur aðili sem ber ábyrgð á að til séu neyðarbirgðir eldsneytis eða hversu miklar þær skulu vera. Þá er heldur engin krafa sett á stjórnvöld eða atvinnulíf til að halda uppi lágmarksbirgðum eldsneytis sem nýta mætti í aðstæðum sem takmarka eða útiloka afgreiðslu eldsneytis til Íslands.