Lánadrottnar yfirtaka N1
Ríkisútvarpið og fleiri fjölmiðlar greina frá því nú í morgun að samkomulag sé orðið milli eigenda N1 annarsvegar og Arion banka og Íslandsbanka hinsvegar að þeir síðarnefndu yfirtaki fyrirtækið. N1 hefur gefið út fréttatilkynningu þar sem segir m.a. að lánardrottnar yfirtaki nú rekstur N1 og sé yfirtakan liður í því að gera upp skuldir fasteignafélagsins Umtaks ehf og BNT hf. Með þessu sé rekstri og þjónustu N1 hf. komið í örugga höfn. Umtalsverðum hluta útistandandi skulda verði breytt í hlutafé.
Fréttavefur Viðskiptablaðsins greinir frá því að skuldir N1 samstæðunnar séu að minnsta kosti 60 milljarðar króna miðað við síðustu birtu ársreikninga félaganna. Arion banki muni samkvæmt þeim drögum að yfirtökusamkomulagi sem fyrir liggi, eignast 38,9% í N1, Íslandsbanki 31,9% og skuldabréfaeigendur 21,3%. Aðrir kröfuhafar muni eignast 7,9%. VB segir ennfremur að lán bæði Umtaks og BNT séu þegar á gjalddaga. Eftir fyrirhugaða endurskipulagningu verði langtímalán félagsins 8,5 milljarðar og hlutfall eigin fjár nálægt 50%.
N1 varð til í febrúar árið 2006 þegar rekstur Bílanausts hf. og Olíufélagsins ehf. voru sameinaðir undir eignarhaldsfélaginu BNT hf. Hlutafé BNT ehf var þá 10,2 milljarðar króna. Stofnað var sérstakt fasteignafélag; Umtak ehf, um fasteignir Bílanausts og Olíufélagsins.
Hjá N1 hafa starfað um 600 starfsmenn á 115 þjónustustöðum um allt land. Þessir þjónustustaðir eru m.a. bensín- og þjónustustöðvar, bifreiða- og hjólbarðaverkstæði og varahlutaverslanir. Því er um að ræða eitt víðfeðmasta og stærsta fyrirtæki landsins í þjónustu og viðskiptum við íslenska bifreiðaeigendur.
Í tilkynningunni frá N1 segir að fall fjármálakerfisins og hrun íslensku krónunnar hafi haft mikil áhrif á skuldastöðu N1 hf., BNT hf. og Umtaks fasteignafélags ehf. Þrátt fyrir góða rekstrarafkomu N1 hf. hafi verið ljóst að skuldir BNT hf. og Umtaks fasteignafélags ehf. væru óviðráðanlegar að óbreyttu og því óhjákvæmilegt að endurskipuleggja fjárhag félaganna.