Landsmenn keyptu 13% fleiri nýja bíla fyrstu fjóra mánuði ársins
Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu voru nýskráningar fólks- og sendibíla á innlendum bílamarkaði alls 2.197 í apríl. Það er 119 bílum færri en í mars en ástæðuna má eflaust rekja til páskahelgarinnar og annarra frídaga í apríl mánuði.
Fyrstu fjóra mánuði ársins keyptu landsmenn 13% fleiri nýja bíla ef miðað er við sama tímabil 2016.
Ljóst er að töluverð breyting hefur orðið á því hvernig bíla almenningur kaupir en mikil aukning hefur orðið á sölu fjórhjóladrifna bíla og þá einkum á jeppum, jepplingum og pallbílum.
Fyrir vikið hefur dregið úr sölu á hefðbundnum, meðalstórum fólksbílum. Þessi sama þróun hefur átt sér stað á meginlandi Evrópu.