Landsréttur stendur með rafbílaeigendum
Landsréttur staðfesti fyrir helgina niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði ógilt úrskurð kærunefndar útboðsmála frá því í júní 2021 þess efnis að Orka náttúrunnar þyrfti að loka hverfahleðslum í Reykjavík. Taldi úrskurðarnefndin útboðið hafa verið ólöglegt en nú hafa bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur komist að annarri niðurstöðu. Hverfahleðslur ON í Reykjavík fá því að vera opnar áfram, öllum rafbílaeigendum til heilla.
„Það er mjög gott að niðurstaða liggi fyrir í þessu máli enda sjáum við að rafbílaeigendur eru að treysta á þessa þjónustu. Við sjáum aukningu í notkun síðustu vikur og mánuði og það er afar mikilvægt að okkar viðskiptavinir geti nýtt sér þessa þjónustu áfram. Hverfahleðslurnar eru ásamt hraðhleðslum okkar og heimahleðslum gríðarlega mikilvægur hlekkur þegar kemur að orkuskiptunum sem eru á fleygiferð. Við höfum alltaf lagt áherslu á að þjónusta alla okkar viðskiptavini með sem bestum hætti og Hverfahleðslurnar gegna lykilhlutverki hjá þeim sem ekki geta hlaðið heima hjá sér,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra ON í tilkynningu.
Nú er hægt að greiða fyrir hleðslu með ON-appinu og til upprifjunar er fólk minnt á að taka með sér snúru í Hverfahleðslurnar.Eigendur brunabíla, bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, eru vinsamlegast beðnir um að leggja bílum sínum annars staðar en í hleðslustæði ON.