Langdrægari Nissan Leaf
Nissan er um þessar mundir að setja á markað nýja langdrægari gerð af rafbílnum Nissan Leaf. Uppgefið drægi Nissan Leaf hefur hingað til verið 200 kílómetrar á hleðslunni. Það er þó „teóretísk“ tala. Í raunverulegri daglegri notkun hefur drægið reynst vera allt að 120 km við bestu sumaraðstæður en mun minna að vetrarlagi. Nýja Leaf gerðin sem komin er í sölu í heimalandinu Japan er heldur langdrægari. Hið „teóretíska“ drægi er 228 km þannig að reikna má með að komast hátt í 150 km. Hið aukna drægi hefur náðst með nýjum og afkastameiri rafhlöðum sem jafnframt eru um 80 kílóum léttari en þær eldri.
Carlos Ghosn, hinn ofurduglegi og litríki forstjóri Renault/Nissan bindur miklar vonir við rafbíla eins og merkja má af þeirri áherslu sem lögð er á rafbílana hjá fyrirtæki hans – bíla eins og Renault Kangoo, Renault Fluence, smáfarartækið Renault Twizy og Nissan Leaf. Ghosn hefur ekki tekið annað í mál en að byggja hreina rafbíla og ekki verið til viðtals um að gera málamiðlanir eins og að setja rafstöð í rafbíla til að gera þá langdrægari. Þannig bíll er t.d. Chevrolet Volt/Opel Ampera sem kemst um samanlagt 800 kílómetra á fullum rafgeymum og fullum bensíntanki.
Sá þröskuldur sem verstur hefur verið í vegi rafbílanna alla tíð er þarna ennþá. Hann er að sjálfsögðu skammdrægi og langur hleðslutími. Mörg ríki, eins og t.d. Noregur sem er mesta rafbílaland heims, vilja gjarnan auka veg rafbíla og greiða götu þeirra sem mest. Það er gert með því að fella niður öll aðflutnings- og skráningargjöld og jafnvel virðisaukaskatt af þeim og veita þeim síðan margskonar fríðindi eins og aðgang að strætisvagna-akreinum og ókeypis bílastæðum og ókeypis rafhleðslu. Allt þetta gerir norska ríkið í ríkum mæli og þessvegna er Noregur orðið mesta rafbílaland heims.
Rafbílar Renault/Nissan eru lang söluhæstu rafbílarnir í heiminum þótt salan sé hvergi nærri því sem vænst var. Rafbílar, ekki síst raf-sendibílar, henta ágætlega til vel skilgreindra verkefna á stuttum akstursleiðum en mun síður á lengri akstursleiðum. Þar standast þeir ekki hefðbundnum brunahreyfilsbílum snúning, þó að svo sannarlega hafi orðið mjög miklar framfarir í rafgeymatækninni og fleiri virðist fyrirsjáanlegar í náinni framtíð.
Þegar fjöldaframleiðsla og sala hófst á Nissan Leaf fyrir rúmlega tveimur árum var gert ráð fyrir því í áætlunum að selja 40 þúsund bíla á hverju bókhaldsári sem er 1. apríl til 31. maí. Það hefur hvergi nærri tekist. Um síðustu mánaðamót höfðu alls 43 þúsund Nissan Leaf bílar selst í heiminum. Þar af hafa það sem af er þessu ári selst 2500 Leaf bílar í Noregi.