Langþráðar vegabætur að hefjast
Undir lok maí sl. ákvað ríkisstjórnin 1,8 milljarða aukaframlag til mjög brýnna framkvæmda í vegakerfinu. Vegakerfið og viðhald þess hefur verið hornreka vegna fjárskorts frá efnahagshruninu 2008 og sérstaklega nú hefur það komið afar illa undan vetri. Viðbótarframlagið er því bæði nauðsynlegt og sjálfsagt til að laga verstu ágallana sem allra fyrst og ástæða til að fagna því.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri var gestur Morgunútgáfunnar á samtengdum rásum Ríkisútvarpsins í morgun og ræddi um hvernig þessu 1,8 milljarða viðbótarfé verði varið. 500 milljónir færu til viðhalds þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu og á hringveginum. „Það er bein afleiðing af því sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu upplifðu hér í vetur og vor, þegar snjóa tók að leysa, að götur komu mjög illa undan vetri. Þessi viðbót er sérstaklega eyrnamerkt því ástandi, sem kannski helgast fyrst og fremst af óvenjulegu veðurfari í vetur og skorti á viðhaldi undanfarin ár.“
Vegamálastjóri sagði að stærstur hluti viðbótarfjárins færi í að lagfæra Dettifossveg, Kjósarskarðsveg, Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg sem allir eru fjölfarnar ferðamannaleiðir. Byrjað verður á Dettifossvegi og fara framkvæmdir við hann í útboð á næstu dögum. Hann sagði ennfremur að nauðsynlegt sé að hefjast handa við að breikka þjóðveg 1, hringveginn og gera að þriggja akreina vegi hið minnsta (2+1). „Það liggur fyrir að gera það til Selfoss á næstu árum og síðan upp í Borgarnes. Það þarf að styrkja og breikka allar helstu leiðir, eins og til Akureyrar," sagði Hreinn í Morgunútgáfunni í morgun.