Langur vegur fram undan þrátt fyrir afgreiðslu samgöngunefndar
Samgönguáætlun með breytingartillögum meirihlutans var afgreidd í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem samgönguráðherra er meðal annars gert að útfæra veggjöld vegna framkvæmda á helstu stofnleiðum í kringum höfuðborgarsvæðið.
Samgönguráðherra þurfi að fylgja málinu eftir með frumvarpi á vorþingi þar sem gjaldtakan og þau verk sem heyrðu undir þau yrðu útfærð nánar og síðan þurfi Alþingi að endurútfæra samgönguáætlun á haustþingi. Ekki er einhugur í nefndinni og lýstu nokkrir nefndarmenn efasemdum um veggjöld eins og þau eru lögð fram í samgönguáætlun sem gerir fyrirvara á nefndaráliti meirihlutans. Nefndarmenn sem gagnrýna veggjöldin segja vinnubrögðin til að koma þeim á ekki rétt og hlutur höfuðborgarinnar og suðvesturhorsins mjög fyrir borð borinn. Þær séu langt frá því útfærðar og leggjast ekki jafnt á íbúa landsins.
Eins og margoft hefur komið fram hefur FÍB gert alvarlegar athugasemdir við tillögur að fyrirhuguðum veggjöldum þar sem félagið telur vegtolla slæma innheimtuaðferð. Þarna sé verið að koma með hugmyndir um innheimtuaðferðir sem fyrir lítið samfélag erum bara allt of dýrar og útheimta allt of mikla fjármuni. Ríkissjóður taki nú þegar um 80 milljarða króna á hverju ári af skattgreiðendum fyrir afnot á bíl og þjónustu við bíleigendur. Aðeins hluti þeirrar upphæðar er nýttur í vegakerfið
Það er alveg ljóst að veggjöldin eru þverpólitískt mál og það verður hart tekist á í meðförum þess á yfirstandandi vorþingi og eins í haust. Meirihluti landsmanna, eða 56,1% aðspurðra, er frekar eða mjög andvígur hugmyndum um veggjöld verði innheimt til að fjármagna uppbyggingu helstu stofnleiða samgöngukerfisins samkvæmt könnun sem Zenter gerði að beiðni Fréttablaðsins á dögunum . Einn af hverjum þremur er frekar eða mjög hlynntur slíkum hugmyndum.
Ekki liggur fyrir endanlega fyrir hvaða verkefni það eru sem fara myndu í gjaldtök. Fram kemur að boðið væri upp á nokkrar leiðir, eins og alfjármögnun með veggjöldum og samfjármögnun með framlögum úr ríkissjóði og veggjöldum.